Linda Björk Gunnlaugsdóttir heiti ég og býð mig fram til embættis formanns Landssambands hestamanna á Landsþingi 2024.
Ég er kraftmikill, reynslumikill og jákvæður leiðtogi með á bakinu áralanga reynslu að starfa fyrir hestamenn. Ég hef ómældan áhuga á öllu sem viðkemur félagsmálum hestamanna og byrjaði mína þátttöku í félagsmálum með því að bjóða fram krafta mína sem sjálfboðaliði í mótahaldi sem leiddi mig svo í fjölbreytt verkefni í þágu hestamanna. Þegar kom að því að velja nýjan formann sameinaðs hestamannafélags Gusts og Andvara bauð ég mig fram í verkefnið og hlaut til þess góðan stuðning og traust.
Sem formaður Spretts, á þeim tíma sem félögin voru nýlega sameinuð, tók ég það að mér að byggja grunn félagsins og brúa bil ólíkra félaga í þeirri vegferð að sameina þau undir
merkjum Spretts. Okkur tókst á stuttum tíma að skapa félag, umgjörð og félagsstarf blandað af nýjum ferskum Spretturum þar sem allir fengu pláss og að taka þátt. Þarna skipti sköpum að búa til framtíðarsýn, markmið og vera með rétta fólkið til að bretta upp ermar og búa til umgjörð sem allir félagsmenn fundu sig innan.
Ég hef einnig setið í stjórn Meistaradeildar, kom að stofnun Áhugamannadeildar Spretts og Blue Lagoon deildarinnar og sat einnig í stjórn deildanna í nokkur ár. Oft hefur verið sagt að stofnun Áhugamannadeildar hafi verið góð þróun fyrir hestamennsku áhugamanna og hún færst upp á nýtt stig. Blue Lagoon deildin er dýrmætur vettvangur fyrir okkar yngstu og reynsluminni knapa til að fá að taka þátt í innanhúss mótaröð óháð liðum og er sú mótaröð að styðja við nýliðun á keppnisvellinum í yngri flokkum. Ég hef einnig komið að því að halda Íslandsmót, úrtökur fyrir HM, Landsmót og svo hef ég verið þulur á fjölmörgum mótum. Á síðasta landsþingi hlaut ég gullmerki LH fyrir störf í þágu hestamennskunnar í landinu. Ég er því ýmsum hnútum kunnug í starfsemi hestamannafélaganna sem ég tel vera einn minn helsta styrkleika í að vera formaður Landssambands hestamanna.
Aðeins um mig sem hestakonu: Ég er 58 ára gömul, fædd á Grundarfirði en alin upp að mestu í Reykjavík. Töluverður partur af uppeldinu fór líka fram að Miðhjáleigu í A-Landeyjum þar sem ég eyddi nær öllum sumrum og helst öllum skólafríum frá því að ég var sex til sextán ára gömul. Í sveitinni átti ég mín fyrstu kynni við hesta og þá var ekki aftur snúið. Ég eignaðist minn fyrsta hest 14 ára þegar ég fékk folald að launum fyrir sumarvinnuna og hef síðan þá átt nær óslitið hesta - meira að segja stundaði ég hestamennsku á íslenska hestinum í Færeyjum þegar ég bjó þar í nokkur ár.
Hestamennskuna á höfuðborgarsvæðinu byrjaði ég í Fáki og eftir búsetu erlendis í Hollandi og Færeyjum flutti ég mig um set í Kópavoginn og fór í Gust, svo í Andvara og síðan í sameinaða félagið Sprett. Í dag er ég með 3-6 hesta á húsi í Spretti og nýt mín við almennar útreiðar, tek þátt á mótum og ver miklum tíma með barnabörnunum í hesthúsinu. Ekkert er betra en að sameina kynslóðir í hestamennskunni og tengjast hvort öðru í verkunum og á útreiðum.
Af hverju ég sem formaður LH: Ég hef gengið með í maganum í nokkur ár að bjóða mig fram í formannsembættið og nú langar mig að bjóða fram krafta mína í að leiða LH inn í framtíðina. Ég ber mikla virðingu fyrir því gífurlega mikla og góða starfi sem hefur verið unnið hjá Landssambandinu í gegnum árin af starfsmönnum en ekki síður sjálfboðaliðum.Ég tel að umgjörð utan um um keppnishluta LH sé góð, afreksstefnan og hæfileikamótun LH er mjög vandað og því ber að hrósa. Samhliða þessu má vinna frekar í því hvernig LH heldur áfram að þróa umgjörðina og tryggir að færustu knaparnir fái tækifæri til að keppa fyrir hönd Íslands óháð efnahag. Lágmarka þannig áhættuna að það komi upp sú staða að mismunun
verði vegna þess að fólk hafi einfaldlega ekki efni á að taka þátt þar sem ólík staða er varðandi fjárhagslegt bakland eða aðgengi að styrkjum.
Mikil þróun hefur verið undanfarin ár, bæði í reiðmennsku, umhirðu hesta og í tækni. Ég tel réttan tíma vera kominn þar sem mikilvægt er að staldra við hjá sambandinu okkar og skoða framtíðarsýn LH. Við þurfum að “leiða saman hesta okkar” og fara í stefnumótun þar sem við spyrjum okkur spurninga eins og:
- Hver erum við og hvert stefnum við?
- hver eru markmið og framtíðarsýn LH?
- hvernig styðjum við félög sambandsins eftir þörfum og umsvifum?
- hvað er hlutverk LH í nýliðun?
- hvað á LH að vera fyrir unga fólkið okkar?
- hvað á LH að vera fyrir almenna reiðmanninn?
- hvað á LH að vera fyrir keppnis reiðmanninn?
- hvað á LH að vera fyrir atvinnumanninn?
Við ræðum þetta oft á hátíðarstundum og oftast rétt fyrir Landsþing eða formannafundi en nú þurfum við að láta verkin tala og fara í þá vinnu að skapa saman framtíðarsýn sem við félagar í LH flykkjumst bakvið. Við þurfum öll að standa saman sem hestamenn - sameinast um að vinna að sameiginlegu markmiði, að gera hestamennskunni hærra undir höfði. Það fæst ekki með að fólk skiptist í fylkingar og grafi undan hvert öðru. Það mun alltaf gerast að einhverjar ákvarðanir verða umdeildar en ef ákvörðun er tekin af þeim sem kosnir eru til verka hjá sambandinu - já eða hestamannafélögunum - þá þarf að bera virðingu fyrir því sem ákveðið, því þannig virkar lýðræði. Við þurfum að hafa meira gagnsæi og upplýsingastreymi úr störfum stjórnar og auka bein tengsl við félögin í landinu.
Ég hef áratuga reynslu af stjórnun í atvinnulífinu sem ég tel muni koma sér mjög vel fyrir LH. Minn ferill hefur einkennst af því að ég er góð að fá fólk til að vinna saman, vinna sem heild, er góð að skapa stemningu og fá fólk með mér í lið. Ég er mikill leiðtogi, er ákveðin en alltaf sanngjörn. Ég er góð að hlusta og meta aðstæður, brúa bil og veigra mér ekki að taka ákvarðanir. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki og einnig mikla virðingu fyrir íslenska hestinum.
Ég tel mig rétta manneskju sem formann LH þar sem reynsla mín í þágu hestamanna, leiðtogahæfni mín frá stjórnunarstörfum úr atvinnulífinu og drifkraftur er hæfni sem ég held að LH þurfi á að halda til að móta samtökin okkar í átt að aukinni samvinnu og samtakamátt.
Kópavogur 17.10.2024
Linda Björk Gunnlaugsdóttir