Framboð til stjórnar: Ólafur Gunnarsson

Kynning; Endurkjör til stjórnar Landsambands Hestamanna (LH):

Ég heiti Ólafur Gunnarsson og býð mig fram til áframhaldandi setu í stjórn LH 2024 - 2026. Ég er að ljúka mínu fyrsta tímabili sem gjaldkeri í stjórninni og hef áhuga, vilja og orku til að halda áfram vinnu að málefnum alls hestafólks og framgangi Íslenska hestsins. Ég ætla ekki að telja upp í þessari grein hvað hefur áunnist á síðasta tímabili hjá stjórn LH en bendi fólki á að lesa greinar á vef LH (www.lhhestar.is) og Eiðfaxa (www.eidfaxi.is) til að kynna sér það betur.

Það hefur verið fróðlegt að koma nýr inn í félagsmál hestamanna. Ég hef haft gríðarlega gaman af starfinu, margt sem hefur komið skemmtilega á óvart og annað sem hefur vakið mig til umhugsunar. Gríðarlega öflugt keppnis og afreksstarf er til fyrirmyndar og árangurinn talar sínu máli. Það er sama hvort litið er til síðasta heimsmeistaramóts, Landsmóts 2024, barna/unglinga starfs eða annars mótahalds, framfarir eru augljósar á öllum sviðum. Við megum samt ekki gleyma því að LH er fyrir allt hestafólk og það þarf að eiga sér öfluga rödd innan sambandsins. Um það bil 90% af félagsmönnum keppir ekki og þó margir fylgist með og mæti á mót hefur þessi hópur meiri áhuga á hvernig hægt er að styðja hina almennu hestamennsku betur. Í því fellst uppbygging reiðvega, öryggismál hestafólks, barnastarf, aðgengi barna að hestamennskunni, að hafa rödd í umræðu hérlendis og erlendis um velferð íslenska hestsins og fleira og fleira. Ég sjálfur hef aðeins keppt en nýt mín sennilega best í 12 vindstigum undir Kjalfelli að elta kindur eða í hestaferð í víðáttu íslenskrar náttúru. Ég vil gæta hagsmuna almenns hestafólks og vinna að framgangi almennrar hestamennsku en að því sögðu styðja vel við keppnis og afreksstarfið.

Ég nefndi að ofan að ýmislegt hafi vakið mig til umhugsunar í mínu starfi fyrir hestafólk. Aðallega hefur það verið orkan og tíminn sem hefur farið í óeiningu og áherslu á einstaka uppákomur í starfinu, sérstaklega í afreks- og keppnisstarfinu.

Við eigum regluverk sem á að styðjast við til að leysa úr ágreiningi á þessum vettvangi og ef það þarfnast lagfæringa eða uppfærslu vegna breytinga eða framfara þá breytum við því. Regluverkið á að vera það sterkt og skilvirt að það geti tekið á nánast öllum málum án þess að komi til verulegra átaka og ágreinings. Þetta á bæði við um reglur keppninnar sjálfrar, framkoma keppanda, dómara og starfsmanna móta sem og framkoma áhorfenda og aðstandenda keppanda.

Það er heilbrigt að hafa skoðanaskipti og takast á um menn málefni en það þarf að hætta að "fara í manninn" og leggjast í skotgrafir en í stað þess að einbeita sér að raunverulegum málefnum hestafólks, sameinast í að gera betur og lyfta umræðunni á hærra plan. Það er enginn eftirspurn eða áhugi hjá flestu hestafólki í að kjörnir fulltrúar, dómarar, starfsmenn eða aðrir eyði tíma og orku í innbyrðis áttök og deilur sem engu áorka. Ég hef einbeitt mér að því að reyna að brúa skoðanabil, sameina en ekki sundra og því vil ég halda áfram ef ég fæ stuðning til áframhaldandi stjórnarsetu.

Það eru mörg önnur mál sem liggja mér á hjarta en ég ætla ekki að hafa langt mál um þau öll en þau lúta meðal annars að:

  • Framtíð hestamennskunar í stóra samhenginu, greina styrk, veikleika, tækifæri og ógnanir sem nýta má til að móta framtíðarsýn og stefnu.
  • Efla og styðja frekara samstarf menntastofnanna og LH . Meðal annars til að safna gögnum og rannsóknum um velferð íslenska hestsins. Mikilvægt að hafa gögn en ekki bara "tilfinningu fyrir" þegar kemur að umræðu um dýravelferð og samfélagslegt leyfi hestamennskunnar (social license to operate).
  • Auka notkun upplýsingatækni til að miðla upplýsingum og efni til hestafólks.

Að þessu sögðu er ég mjög bjartsýnn á framtíð hestamennskunnar í öllum sínum fjölbreytileika og vil leggja krafta mína fram til að styrkja þá framtíð. Það eru mörg einstök mál sem huga þarf að, klára sum og ýta öðrum úr vör. Ég ætla að leggja þeim lið, hjálpa til við að sameina hestafólk enn frekar og útbreiða þá gleði og lífsfyllingu sem umgengni við Íslenska hestinn veitir.

Á Helgastöðum, Bláskógabyggð 20 október 2024.