UÍA

SPRETTUR

Afrekssjóðurinn Sprettur er einkum ætlaður til að styrkja íþróttaiðkun barna og unglinga. Úr sjóðnum er úthlutað fjórum gerðum styrkja sem nánar er gerð grein fyrir í úthlutunarreglum. Þetta eru afreksstyrkir, iðkendastyrkir, þjálfarastyrkir og félagastyrkir.

Heimilt er að styrkja aðildarfélög UÍA sem hyggjast auka tækifæri barna og unglinga á svæðinu til að stunda íþróttir. Verkefni skulu vera á ábyrgð tiltekins íþróttafélags og vera nýjung eða viðbót við það starf sem fyrir er á viðkomandi svæði. Einnig er heimilt að styrkja kaup á búnaði eða uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar. Hámarksfjárhæð þjálfara- og félagastyrkja er 200.000.

Afreksstyrki skal veita íþróttafólki 14-20 ára, sem sérstaklega hefur skarað fram úr í sinni grein. Kynjahlutfall styrkþega skal vera jafnt ef kostur er. Afreksstyrkir skulu ekki bundnir við tiltekið verkefni en sá sem hlýtur afreksstyrk skal gefa úthlutunarnefnd skýrslu um ráðstöfun styrksins innan árs frá því að viðkomandi hlýtur hann. Fjárhæð hvers afreksstyrks er kr. 200.000.-

Ferðastyrkir skulu veittir íþróttafólki 12-20 ára, sem búsett er á Austurlandi til að standa straum af kostnaði við æfingaferðir milli byggðarlaga á Austurlandi eða út fyrir fjórðunginn. Þá er heimilt að veita styrkina til að standa straum af öðrum kostnaði sem hlýst af því að æfa viðkomandi íþróttagrein. Þeir skulu að jafnaði ganga fyrir um styrk sem eru kallaðir til æfinga í úrvalshópum á vegum sérsambanda ÍSÍ eða með landsliðum. Séu fleiri en einn af Austurlandi á leið í slík verkefni innan sama sérsambands má sækja um fyrir hópinn með einni umsókn. Hámarksfjárhæð almennra ferðastyrkja til einstaklinga skal vera kr. 100.000.-

Um þjálfara- og félagastyrki geta annars vegar sótt þjálfarar sem hyggjast afla sér aukinnar þekkingar eða réttinda með námskeiðum eða annars konar fræðslu. Skilyrði er að viðkomandi þjálfari sé starfandi á Austurlandi. Einnig er heimilt að styrkja aðra starfsmenn íþróttafélaga eða sjálfboðaliða til að afla sér þekkingar sem nýtist við skipulag þjálfunar barna og unglinga. Séu fleiri en einn þjálfari á leið á sama námskeið, eða staðið sé fyrir námskeiði á Austurlandi, er heimilt að sækja um fyrir alla sem það sækja í einni umsókn.

Úthlutað er úr sjóðunum einu sinni á ári.

Nánar: UÍA - Sprettur (uia.is)

Senda inn umsókn: UÍA - Senda inn umsókn (uia.is)

 

AFREKS- OG FRÆÐSLU SJÓÐUR UÍA

Tilgangur sjóðsins er að styrkja austfirska afreksmenn til æfinga og keppni og efla fræðsluþátt íþróttastarfsins.

Úthlutun úr sjóði skiptist í A, B og C flokk.

A flokkur. Rétt til styrkveitinga eiga þeir sem skara fram úr í íþróttagrein sinni eru til að mynda í landsliði, sigra á Íslandsmeistaramóti, setja Íslandsmet eða á annan hátt sýna að þeir eru afreksmenn í íþróttum.

B flokkur. Styrkveiting til íþróttafólks sem sýnir stórstígar framfarir í grein sinni. Æfinga- og ferðastyrkir til efnilegra íþróttamanna.

C flokkur. Styrkveitingar til einstakra fræðslu- eða þjálfunarverkefna hjá sérgreinaráðum UÍA eða félögum. Skilyrði er að opið sé fyrir þátttöku frá öllum aðildarfélögum UÍA samkvæmt almennum reglum. Kynningarstarf fellur ekki undir þennan flokk.

D flokkur: Þessu til viðbótar er stjórn UÍA heimilt að nota fé úr sjóðnum til niðurgreiðslu þátttökugjalda fyrir keppendur sem keppa undir merkjum UÍA á landsmótum á vegum UMFÍ, Íslands- og bikarmeistaramótum sérsambanda innan ÍSÍ, eða á skipulögðum ferðum sambandsins á sambærilega viðburði bjóði staða sjóðsins upp á það.

Ekki er sérstakur umsóknarfrestur fyrir umsóknir í sjóðinn.

Nánar: UÍA - Reglugerð um Afreks- og fræðslusjóð (uia.is)