Um LH

Fræinu að stofnun landssamtaka hestamanna var sáð á svonefndum Þingvallafundi 1941. Það var Jón Pálsson, dýralæknir á Selfossi og þáverandi formaður Sleipnis, sem átti hugmyndina að þeirri samkomu en hana sóttu um 140 hestamenn úr fjórum hestamannafélögum: Fáki, Faxa, Glað og Sleipni. Komu þeir ríðandi á 333 hrossum og dvöldu þar yfir helgi. Á þessum fundi varpaði Gunnar Bjarnason, þá nýráðinn hrossaræktarráðunautur, fram hugmynd að stórsýningu á hestum á Þingvöllum, sem síðar varð að fyrsta Landsmóti hestamanna 1950.

Landssamband hestamannafélaga var stofnað í Baðstofu iðnaðarmanna 18. desember 1949. Tólf hestamannafélög lögðu grunninn. Gunnar Bjarnason leiddi undirbúningsvinnu að stofnun sambandsins en fyrsti formaður þeirra var H.J. Hólmjárn. Í fyrstu lögum LH segir m.a.: „Markmið sambandsins er að vinna að bættri meðferð hesta, sérræktun íslenzks reiðhestakyns og framgangi reiðhestaíþrótta....“