Á annað þúsund hafa sótt viðburði FT í haust

08.12.2009
Ísólfur Líndal Þórisson og Sindri frá Leysingjastöðum. Mynd: HGG
Félag tamningamanna hefur staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum í haust, bæði sýnikennslum og fræðslufundum og hefur aðsókn verið mjög góð. Vel á annað þúsund manns hafa sótt þær uppákomur sem í boði hafa verið og framundan er fleira spennandi á vegum FT. Félag tamningamanna hefur staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum í haust, bæði sýnikennslum og fræðslufundum og hefur aðsókn verið mjög góð. Vel á annað þúsund manns hafa sótt þær uppákomur sem í boði hafa verið og framundan er fleira spennandi á vegum FT. Í síðustu viku stóð FT fyrir sýnikennslu með Ísólfi Líndal í reiðhöllinni á Kjóavöllum og tókst hún ekki síður vel en fyrri uppákomur. Húsfyllir var af áhugasömum hestamönnum sem fylgdust með Ísólfi sýna stig af stigi hvernig hann vinnur með hross í gegnum mismunandi tamningar- og þjálfunarstig, lið fyrir lið.
Ísólfur var skipulagður og greinargóður í framsögn sinni og var mikil ánægja með þann fróðleik sem hann hafði fram að færa. Hann notaði þrjú hross við kennsluna, eina fjögurra vetra hryssu, eina fimm vetra og svo hinn stórskemmtilega og vaxandi keppnishest Sindra frá Leysingjastöðum. Ísólfur minnti hestamenn á að gefa sér ávallt nægan tíma, ekki gera of miklar kröfur of snemma, muna að gefa skýr skilaboð og vera samkvæmur sjálfum sér í þjálfuninni.  Að sýningu lokinni lét Ísólfur sig ekki muna um að bruna norður á Hóla og mæta til kennslu að morgni næsta dags. Kraftmikill kappi á ferð!

www.tamningamenn.is - HGG