Æskulýðsnefnd LH á faraldsfæti

10.02.2017

Æskulýðsnefnd Landssambands hestamannafélaga stefnir í sína reglulegu fundarherferð um landið í febrúar og mars. Fundirnir verða sex talsins og eru haldnir víðsvegar um landið.

Tilgangur fundanna er að efla tengsl nefndarinnar við það fólk sem vinnur að og hefur áhuga á æskulýðsmálum í hestamannafélögunum og einnig að kynna starfsemi nefndarinnar.

Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að efla og styrkja æskulýðsfulltrúa um land allt, auka fræðslu þeirra og styðja við þá í þeirra starfi. Vefur LH er hugsaður sem upplýsingatæki eða gagnagrunnur þar sem æskulýðsfulltrúar og aðrir áhugamenn um þessi málefni geta sótt sér upplýsingar um allt það er styrkir æskulýðsstarf innan hestamannafélaganna.

Einnig hefur nefndin umsjón með erlendu samstarfi á sviði æskulýðsmála, sem er FEIF Youth Camp og Youth Cup.
Eins og fram kom á Landsþinginu í Stykkishólmi í haust mun áhersla sambandsins vera á nýliðun og æskulýðsmál og er þessi fundaferð liður í því. Það von nefndarinnar að sem flestir sjái sér fært að mæta á fundina sem eru opnir öllum áhugamönnum um æskulýðsstarf í hestamannafélögunum. Sérstaklega er óskað eftir því að allir þeir sem starfa að æskulýðmálum félaganna mæti.

Fyrsti fundurinn verður haldinn í reiðhöllinni á Akureyri laugardaginn 18. febrúar kl. 11:00. Þangað er stefnt öllum fulltrúum félaganna á Norðurlandi, þó vitanlega séu allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þessi félög eru: 

  • Léttir
  • Funi
  • Feykir
  • Grani
  • Hringur
  • Glæsir
  • Gnýfari
  • Þjálfi
  • Snarfari
  • Þráinn
  • Skagfirðingur

Einnig eru á dagskrá fundir á Vesturlandi, Suðurlandi, Suðausturlandi, Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu og munn fundartíma þessara funda verða auglýstur bráðlega. 

Æskulýðsnefnd LH hvetur áhugasama til þess að mæta og sækja góðan fund um málefni æskulýðsins í hestamennskunni. Það er stöðugt þörf á því að halda vel á spöðunum í þessum málaflokki. 

Með kærri kveðju, 
Æskulýðsnefnd LH

Helga B. Helgadóttir
Andrea Þorvaldsdóttir
Sóley Margeirsdóttir
Stefán Ármannsson
Svanhildur Jónsdóttir