Áhorfendur í einkabílum heimilir á mótum utanhúss

29.01.2021

LH sendi fyrirspurn til sóttvarnaryfirvalda um hvort heimilt væri að leyfa áhorfendur í einkabílum á vetrarmótum í hestaíþróttum utanhúss. Í svari heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að ekkert sé því til fyrirstöðu að því gefnu að á staðnum sé sóttvarnarfulltrúi sem tryggir að ekki verði hópamyndun fyrir utan bíla og engin veitingasala á staðnum. 

Svar Heilbrigðisráðuneytisins er eftirfarandi:
„Samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er óheimilt að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja sóttvarnir, þ.e. koma í veg fyrir hættu á dropasmiti á áhorfendapöllum og jafnframt koma í veg fyrir hópamyndanir. Aftur á móti ef fólk situr í einkabílum sínum við keppnissvæði, ef á staðnum er sóttvarnafulltrúi sem tryggir að ekki verði hópamyndun fyrir utan bíla og engin veitingasala á staðnum, sér ráðuneytið því ekkert til fyrirstöðu að fólk sitji þar í bílum sínum. Þannig er ekki talið að veita þurfi undanþágu þar sem fólk situr í einkabíl sínum og í hverjum bíl séu reglur um fjöldatakmarkanir og nálægðartakmörkun virtar.
Til upplýsingar fær lögreglan afrit af erindi þessu.“

LH vill minna á reglur um fjöldatakmarkanir á keppnissvæði í íþróttum og hvetur mótshaldara til að gæta þess að heildarfjöldi innan keppnissvæðis, keppendur og starfmenn, fari ekki yfir 50 manns. Sóttvarnarreglur í hestaíþróttum er að finna á vef LH.