Áhugaverð tölfræði um félagsaðild afreksknapa

19.12.2024

Til gamans og glöggvunar höfum við tekið saman örlitla tölfræði um afreksstarfið með tilliti til félagsaðildar. Það er áhugavert að rýna í þessar tölur.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru flestir þátttakendur í afreksstarfinu þetta árið í Geysi eða 21 knapar og tveir þjálfarar, en 12 af þessum knöpum, ásamt þjálfara, eru í hæfileikamótun, sex í A landsliðinu og þrír í U21 ásamt þjálfara. Á eftir Geysi kemur Fákur með 10 knapa og einn þjálfara, þrjá A landsliðsknapa ásamt þjálfara, tvo í U21 og fimm þátttakendur í hæfileikamótun. Sprettur sem er núverandi handhafi æskulýðsbikars LH er með níu knapa í U21 og hæfileikamótun en engan í A landsliðinu. Sprettur hefur lagt mikla áherslu á barna og unglingastarfið hjá sér sem mögulega er að endurspeglast þarna.

Geysir, Fákur og Sleipnir eru þau þrjú félög sem halda hvað flest mót en Sleipnir er með sjö knapa í afreksstarfi, fjóra í A landsliðinu, einn í U21 og tvo í hæfileikamótun.

Jökull er ungt félag en vex hratt og er með þrjá landsliðsknapa og þrjá í hæfileikamótun, fast á hæla Jökuls kemur svo Skagfirðingur með einn A landsliðsknapa, einn í U21 og þrjá í hæfileikamótun.

Það verður áhugavert að velta fyrir sér hvað liggur á bakvið þessar tölur á hverjum stað og verður gaman að sjá hvernig þessar tölur þróast með sí faglegra starfi í félögunum. Auk þeirra sem talin eru upp hér var um liðna helgi vinnuhelgi B-hóps hæfileikamótunar sem telur um 20 knapa. Allt í allt eru það því tæplega 100 knapar sem taka þátt í afreksstarfi á vegum LH, þetta árið.