Allra sterkustu 20. apríl

24.03.2022

Allra sterkustu, fjáröflunarmót landsliðs Íslands í hestaíþróttum, verður haldið síðasta vetrardag 20. apríl í TM-reiðhöllinni í Víðidal. Allur ágóði af mótinu rennur til landsliðsins sem fer á Norðurlandamót í ágúst í Álandseyjum.

Mótið er með léttu yfirbragði, þar sem knapar í U21 landsliðhópnum sýna listir sínar og A-landsliðsknaparanir mætast á sínum sterkustu hestum. Einnig verður boðið upp á glæsisýningar hátt dæmdra kynbótahrossa og glens og gaman.  Að sýningu lokinni verður tónlist og spjall í anddyri reiðhallarinnar fram eftir kvöldi.

Stóðhestaveltan verður á sínum stað, þar sem 100 tollar undir hátt dæmda stóðhesta verða í pottinum en síðustu ár hafa færri fengið en vilja.

Happdrætti með veglegum vinningum verður til styrktar landsliðsknöpum yngri flokka sem keppa á Norðurlandamóti.

Mætum öll, gleðjumst saman og styrkjum landsliðið okkar.

Áfram Ísland!