Árni Björn er knapi ársins

05.11.2016
Verðlaunahafar ársins

Uppskeruhátíð hestamanna var hátíðleg að vanda og þar voru verðlaunaðir knapar ársins í sex flokkum auk þess sem keppnishestabú og ræktunarbú ársins voru verðlaunuð. 

Allir þeir knapar sem tilnefndir voru eru frábærir íþróttamenn sem hafa unnið hörðum höndum að árangri sínum á líðandi ári og mega sannarlega vera stoltir af honum. 

Knapi árins er Árni Björn Pálsson
Árni Björn er einbeittur keppnismaður af lífi og sál. Hann mætir vel undirbúinn til leiks og setur markið hátt. Hans árangur er breiður og hann stendur framarlega í öllum greinum keppni og sýninga, sem sést best á því að hann er hér tilnefndur í fjórum flokkum í kvöld. Það er einstakt afrek að sigra tölt bæði á Landsmóti og Íslandsmóti sama sumarið eins og Árni Björn gerði árið 2014. Þann leik endurtók hann í sumar á hinum einstaka Stormi frá Herríðarhóli. 

Efnilegasti knapi ársins er Dagmar Öder Einarsdóttir
Dagmar Öder er ungur knapi með mikla reynslu í keppni frá unga aldri. Frábær reiðmennska og samspil hennar við hrossin skila henni góðum árangri. Dagmar varð Íslandsmeistari í fjórgangi ungmenna, þriðja í tölti á sama móti og þriðja í ungmennaflokki á Landsmóti á hryssunni Glóeyju frá Halakoti. Þær stöllur sigruðu einnig fjórgang ungmenna á Reykjavíkurmeistaramóti. Dagmar er einnig vaxandi knapi og náði góðum árangri í sumar í 100m og 250m skeiði á Oddu frá Halakoti. 

Íþróttaknapi ársins er Hulda Gústafsdóttir
Huldu þarf vart að kynna fyrir hestaáhugafólki en hún hefur um árabil verið einn af okkar fremstu knöpum og slær hvergi af. Hún varð tvöfaldur Íslandsmeistari í sumar, í fimmgangi á Birki frá Vatni og í fjórgangi á Aski frá Laugamýri. Hulda náði einnig frábærum árangri í töltkeppnum sumarsins á hryssunni Rósalín frá Efri-Rauðalæk.  

Gæðingaknapi ársins er Jakob Svavar Sigurðsson
Jakob er þaulvanur keppnismaður í hestaíþróttum og lætur til sín taka í öllum greinum. Hann kom fjórum hestum inn á Landsmót í gæðingakeppninni og öll fóru þau í úrslit. Hæst þeirra fór hinn einstaki gæðingur Nökkvi frá Syðra-Skörðugili en þeir félagar stóðu uppi sem Landsmótssigurvegarar í B-flokki gæðinga. Sýningar Jakobs á Nökkva einkenndust af öryggi og fumlausu sambandi þeirra á milli sem undirstrikaði hæfileika hestsins. 

Skeiðknapi ársins er Bjarni Bjarnason
Bjarni hefur verið einn af okkar allra bestu skeiðknöpum síðustu ár og segja má að hann hafi sérhæft sig í skeiðgreinum. Hann hefur verið með þau Heru, Blikku og Glúm frá Þóroddsstöðum í skeiðkeppnum sumarsins og átt marga ógleymanlega spretti sem oft skiluðu honum í fyrsta sætið. Hápunktur sumarsins var sigur í 250m skeiðinu á Landsmóti en þar fór Bjarni á tímanum 21,41 sek á Heru og setti þar með nýtt heimsmet.

Kynbótaknapi ársins er Daníel Jónsson

Keppnishestabú ársins er Ketilsstaðir / Syðri-Gegnishólar

Þau Bergur Jónsson og Olil Amble kenna sín hross ýmist við Ketilsstaði eða Syðri-Gegnishóla. Þeirra ræktun hefur verið áberandi á keppnisvöllunum í ár og má þar fyrsta nefna Kötlu frá Ketilsstöðum. Bergur varð annar í tölti á Kötlu á Íslandsmótinu í hestaíþróttum, þriðji í sömu grein á Landsmóti og í 5.sæti í B-flokknum á því móti, svo eitthvað sé nefnt.
Annar gæðingur úr þeirra röðum hefur vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína og það er Frami frá Ketilsstöðum, sýndur af þjálfara sínum og eiganda Elínu Holst. Þau sigruðu bæði fjórgang og slaktaumatölt á Íslandsmótinu, urðu í 4.sæti í B-flokki á Landsmóti og í 10.sæti í tölti.
Olil keppti á Álffinni frá Syðri-Gegnishólum fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu í Noregi í sumar og enduðu þau þriðju í sterkri keppni.
Síðan má nefna hesta eins og Hlébarða og Fálmar frá Ketilsstöðum en Hlébarði varð svissneskur meistari í fimmgangi og Fálmar varð norskur meistari í fjórgangi ungmenna.
Listinn yfir afrekshrossin úr ræktun þeirra Bergs og Olil er langur þó talin hafi verið upp örfá þeirra hér.
Ræktunin þeirra Ketilsstaðir / Syðri-Gegnishólar hljóta titilinn „Keppnishestabú ársins 2016“ og er það annað árið í röð sem þau fagna þeim titli.