Bein útsending frá Landsmóti hestamanna í samstarfi við Oz

14.06.2016

Landssamband hestamannafélaga og Landsmót hestamanna hafa gengið frá samkomulagi við hugbúnaðarfyrirtækið OZ um umsjón með streymi á myndefni frá Landsmóti hestamanna sem hefst á Hólum í Hjaltadal 27. júní nk.

Frá því að Landsmót hefst, mánudaginn 27.júní, og þar til allri dagskrá lýkur, sunnudaginn 3.júlí, verður streymt beint frá mótinu í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið  Oz. Frá mánudegi til fimmtudags verða tvær útsendingar í boði, annarsvegar frá kynbótabrautinni og hinsvegar frá gæðingakeppninni. Frá og með föstudegi færist allt mótið yfir á aðalvöllinn og verður því ein útsending í boði frá föstudegi til sunnudags.

Auk beinnar útsendingar gefst notendum OZ snjallsímaforritsins og vefsins að horfa á upptökur frá hverjum degi fyrir sig eftir að keppni lýkur. Það er frábær viðbót fyrir keppendur og sýnendur mótsins sem geta þá séð upptökur af sýningum sínum.

Aðgangur að LH TV streyminu mun eingöngu kosta 6.990 kr. og gildir sú áskrift í mánuð. Þá verður einnig hægt að fylgjast með Íslandsmótinu í hestaíþróttum, sem fer fram í júlí, fyrir sömu áskrift.

Til að nálgast útsendinguna er byrjað að skrá sig í gegnum https://oz.com/LH og velja “GET ACCESS”. Eftir skráningu má hlaða niður snjallsímaforriti fyrir öll helstu tæki, eða horfa á útsendinguna í gegnum vefinn.

Inn á Oz snjallsímaforritinu er nú þegar að finna upptökur frá tilraunaútsendingu sem fram fór helgina 3.júní til 5.júní hjá hestamannafélaginu Spretti. Einnig er þar að finna myndbönd frá Landsmótum fyrri ára sem ekki hafa verið birt áður.