Benedikt Líndal hlýtur heiðursmerki LH

14.10.2024
Benedikt Líndal og Guðni Halldórsson Mynd: Eiðfaxi

Benedikt Líndal hlaut heiðursmerki LH á uppskeruhátíð hestafólks sem fram fór í Gullhömrum þann 12. október. 

Guðni Halldórsson formaður LH veitti honum viðurkenninguna og flutti við það tilefni þessi orð: 

 

Benedikt er tamingameistari FT og hefur verið brautryðjandi í kennslu, tamningum og þjálfun íslenska hestsins. Hann hefur starfað sem reiðkennari við Landbúnaðarháskólana bæði á Hvanneyri og á Hólum og stundað reiðkennslu hérlendis og erlendis við góðan orðstír.

Benedikt eða Benni eins og hann er alla jafnan kallaður hefur verið frumkvöðull í þróun hestvænnar hestamennsku og tamningaaðferða. Sem kennari er áhersla hans alltaf á velferð hestsins í því flókna samspili sem samskipti manns og hests eru. Nemendur hans læra að skilja betur tungumál og tjáningarmáta hestsins hegðun hans og þarfir.

All flestir hestamenn hérlendis hafa án hefa komist í tæri við hugmyndafræði Benna í gegnum kennslumyndbönd, fjölda útgefinna bóka og kennsluefnis um tamningar og þjálfun og eru áhrif hans á reiðmennsku bæði atvinnumanna og leikmanna á Íslandi ótvíræð.

Yfirveguð nálgun hans á þjálfun unghrossa með það að markmiði að nálgast þau út frá þeirra forsendum og lundarfari hefur að margra mati gjörbreytt tamingaraðferðum hérlendis.

Benedikt Líndal er fyrirmynd annara hestamanna á mörgum sviðum ekki síst í framkomu þar sem fagmennska og kurteisi einkenna öll hans störf. Þá hefur hann gert garðinn frægan sem einn af okkar fremstu keppnisknöpum og ásamt konu sinni Sigríði Ævarsdóttur komið að þróun innanhúsmóta. Þá hefur hann í mörg ár verið í samvinnu við hinn þekkta reiðtygjaframleiðanda Stübben GmbH, og hannað og framleitt Benni´s Harmony hnakka.

Benni hefur stuðlað að framgangi hestamennskunnar með hestvænni og jákvæðri nálgun. Hann hefur verið talsmaður nýjunga sem eru hestinum til framdráttar og leitast ætíð við að vinna í sátt við hestinn.

Benedikt Líndal hlýtur hér með Heiðursmerki LH