Dagskrá Kvennatöltsins

12.04.2013
Dagskrá Kvennatöltsins á laugardaginn kemur liggur nú fyrir. Keppni hefst kl. 15 í reiðhöllinni í Víðidal og mun standa fram á kvöld. Skráning er góð í alla flokka og stefnir í spennandi keppni. Þegar forkeppni lýkur verður gert matarhlé en svo hefst úrslitakeppnin kl. 19:40 með B og A úrslitum í öllum flokkum.

Dagskrá Kvennatöltsins á laugardaginn kemur liggur nú fyrir. Keppni hefst kl. 15 í reiðhöllinni í Víðidal og mun standa fram á kvöld. Skráning er góð í alla flokka og stefnir í spennandi keppni. Þegar forkeppni lýkur verður gert matarhlé en svo hefst úrslitakeppnin kl. 19:40 með B og A úrslitum í öllum flokkum.

Verðlaunahafar á mótinu munu fara hlaðnir heim. Sigurvegarinn í hverjum flokki fær glæsilegan sérhannaðan farandgrip frá Mustad til varðveislu, auk þess sem allir verðlaunahafar í A-úrslitum fá eignargrip og verðlaunahafar í B-úrslitum sérhannaða verðlaunapeninga. Allir verðlaunahafar fá snyrtivöruglaðning frá Art Deco og sigurvegarinn í hverjum flokki fær sérmerkta Kvennatölts ábreiðu frá Topreiter.

Verðlaunin fyrir glæsilegasta parið eru ekki af verri endanum, en að þessu sinni verður glæsilegasta parið í hverjum flokki valið. Í opnum flokki er það lúxus drottningarferð með Íshestum sem er í verðlaun og í öllum hinum flokkunum eru það beislissett frá Jóni Söðla, pískur, hanskar og buff frá Hestum og mönnum og 10.000 króna gjafabréf frá Top Reiter. Allir keppendur koma að sjálfsögðu til greina við valið svo nú er að sjæna sig og hestinn og finna til sparidressið! 

Undirbúningsnefndin hefur ákveðið að allur ágóði af mótinu muni renna til tveggja ungra stúlkna sem orðið hafa fyrir áföllum í lífinu og glíma við fötlun, þeirra Önnu Rebecku Einarsdóttur og Nínu Kristínar Sigurbjörnsdóttur. Þessar dugmiklu stúlkur eru öðrum hvatning til góðra verka og vonast undirbúningsnefndin til að vegleg fjárhæð safnist til þessa góða málefnis.

Einnig má nefna að happdrættismiðar Hrossaræktar.is verða til sölu á svæðinu, en ágóði af þeim rennur óskiptur til Duchenne Samtakanna, en Duchenne er sjaldgæfur arfgengur vöðvarýrnunarsjúkdómur sem leggst eingöngu á drengi. 

Aðgöngumiðaverð er aðeins kr. 500 og frítt er inn fyrir 14 ára og yngri. Kvennadeild Fáks mun verða með veitingasölu á mótinu og vonast mótshaldarar til að sem flestir kíki við í Víðidalnum á laugardaginn, sjái glæstar konur á gæðingum sínum og styðji gott málefni í leiðinni. 

Reiðhöllin í Víðidal er opin til æfinga frá kl. 16:00 í dag föstudag.

 

Dagskrá:

kl. 15 – Byrjendaflokkur forkeppni

kl. 16 – Minna vanar forkeppni

kl. 16:45 – Meira vanar forkeppni

kl. 18:10 – Opinn flokkur forkeppni

MATARHLÉ

kl. 19:40 – B úrslit:

Byrjendaflokkur

Minna vanar

Meira vanar

Opinn flokkur

kl. 21:30 – A úrslit:

Byrjendaflokkur

Minna vanar

Meira vanar

Opinn flokkur

Ráslistar eru í vinnslu og verða sendir út, vonandi í kvöld fimmtudagskvöld, eða á föstudagsmorgun.

Sjáumst hress í Víðidalnum á laugardaginn! 

Nefndin