Egill Már tekinn inn í U21-landsliðshóp LH

19.06.2023
Egill Már Þórsson

Landsliðsþjálfari U21-landsliðs LH í hestaíþróttum hefur ákveðið að taka Egil Má Þórsson úr hestamannafélaginu Létti inn í hópinn.  

Hekla Katharína Kristinsdóttir landsliðsþjálfari U-21 árs landsliðsins hefur fylgst grannt með þróun mála hjá knöpum sem eru gjaldgengir í U-21 og hefur hópurinn stækkað í sumar, en ein af forsendum þess að komast í hóp á þessum tímapunkti fyrir utan góðan árangur á keppnisbrautinni er að vera með hest sem er falur í landsliðsverkefni ársins sem er HM í Hollandi.

Í U21 landsliðshópi LH eru nú 16 sterkir knapar sem berjast um þau fimm sæti sem í boði eru fyrir ungmenni á HM í Hollandi í ágúst.

Egill Már átti stórgott mót á Reykjarvíkur móti Fáks um helgina þar sem hæst bar sigur í T1 á Össu frá Miðhúsum og annað sæti í F1 á Kjalar frá Ytra-Vallholti. Egill segist hafa stefnt á að ná langt á þessu móti og minna á sig fyrir U21.  „Assa er mikill gæðingur og ég vissi alveg að við gætum náð langt saman, hún er 9. vetra orkumikil, létt og skemmtileg hryssa. Tengdapabbi hefur mest verið að keppa á henni hér fyrir norðan en við höfum verið að máta okkur saman og þetta gekk alveg upp um helgina.“ Aðspurður um framhaldið segir hann drauminn vera að komast á HM: ,,Framundan er meiri þjálfun og undirbúningur, hún á fullt inni, nú höldum við henni bara þjálli og stresslausri og gerum þetta af metnaði og sjáum hverju það skilar.“

Egill og Assa voru sannarlega glæsileg um helgina og eru þau boðin velkomin í U21 árs landsliðshópinn.