Elvar og Fjalladís tvöfaldir heimsmeistarar!

10.08.2023

Nú er þriðja degi heimsmeistaramótsins lokið og það má með sanni segja að Íslenski hópurinn hefur staðið sig gífurlega vel og raðað inn verðlaunum. Í kvöld fóru fram seinni tveir sprettirnir í 250m skeiði. Elvar og Fjalladís áttu fyrir kvöldið besta tíman 22,17 sek. Fyrstur Íslendinga í braut í kvöld var Hans Þór og Jarl. Þeir náðu ekki gildum sprett í gær, en mættu af krafti í kvöld og áttu sprett upp á 22,68 sem tryggði þeim 6. sætið. Næst var það Sigríður og Ylfa þær tví bættu besta tíman sinn í 250m skeiði hér úti, sannarlega flottur árangur það. Daníel og Eining áttu fyrir kvöldið í kvöld 7. besta tíman með sprett upp á 23,43 sek. Þau komu sjóðandi heiti út úr básunum og náðu öðrum besta tímanum 22,36. Elvar og Fjalladís náðu ekki gildum sprett í 3. umferð.

Í byrjun 4. umferðar leiddu því Íslendingar og ljóst að Elvar og Danni myndu starta saman í síðasta sprettinum. Næst síðasti sprettur kvöldsins var geysi spennandi en þegar í ljós kom að Natalie Fischer á Ímni frá Egeskov kæmist ekki nær okkar mönnum var ljóst að Heimsmeistaratitilinn færi til Íslands. En spretturinn sem þá tók við þar sem Elvar og Fjalladís og Daníel og Eining öttu kappi verður lengi í minnum hafður. Þvílíkur sprettur, Elvar og Fjalladís leiddu til að byrja með en Daníel og Eining sóttu fast og voru þau allt að því jöfn þegar komið var að endamörkum, en það var enginn önnur en Fjalladís frá Fornusöndum sem var fljótari og bætti tíman sinn í 22,15sek.

Þessi árangur er ekki bara stórkostlegur í ljósi þess að Elvar og Fjalladís voru þegar búin að vinna gæðingaskeiðið, heldur ber þess að geta að Fjalladís var að taka þátt í sínum fyrstu skeið kappreiðum og það gerir hún með slíkum glæsibrag að hún endar sem heimsmeistari í 250m skeiði. Þvílík snilld.

Það voru því fjórir Íslendingar sem fóru á pall í verðlaunaafhendingunni í kvöld. Elvar tók við tveimur heimsmeistaratitlum, Benedikt tók við heimsmeistaratitli ungmenna í gæðingaskeiði, Daníel tók við verðlaunum fyrir annað sæti í 250m skeiði og Hans Þór fyrir 6. sætið í 250m skeiði. Glæsilegur árangur!

Dagurinn gekk líka vel á kynbótabrautinni. En í dag fór fram yfirlit 7 vetra og eldri hryssna og stóðhesta. Katla frá Hemlu ll, hækkaði sig í 8,76 og er þar með hæst dæmda kynbótahrossið á HM 2023! Hersir frá Húsavík var annar fyrir daginn í dag og hélt þeirri stöðu þrátt fyrir að hann hafi hækkað sig úr 8,55 í 8,60. Það eru því fimm gull og eitt silfur sem Íslendingar taka með sér heim úr kynbótakeppninni, frábær árangur það!

Katla frá Hemlu ll og Árni Björn

 

Á morgun er svo annar stór dagur og sá lengsti samkvæmt dagskrá en hún byrjar kl 8 í fyrramálið og stendur keppni til klukkan 21:05. Morgundagurinn hefst á keppni í T2. Þar eigum við eitt par þau Benedikt og Leiru-Björk. Þau eru með rásnúmer 41 og verða því í braut um hádegi. Þar á eftir er svo komið að tölti T1 sem hefst kl 14:30, þar eigum við 6 fulltrúa. Fyrst á völlinn verða Jóhanna og Bárður (14), næst eru Viðar og Þór (28), Benjamín og Júní (30), Glódís og Salka (32), Jón Ársæll og Frár (39) og síðust í braut verða Herdís og Kvarði (51). En alls eru 58 keppendur skráðir í Tölt T1.

Við vonum svo sannarlega morgundagurinn verði jafn góður og dagurinn í dag. Áfram Ísland.