Fleiri gæðingar í stóðhestaveltunni

15.04.2022
Hersir frá Húsavík

Stóðhestavelta landsliðsins er á sínum stað í tengslum við Allra sterkustu sem haldið verður í TM-reiðhöllinni í Víðidal á síðasta vetrardag, miðvikudagskvöldið 20. apríl nk.  Um 100 folatollar verða í pottinum sem stóðhestaeigendur hafa gefið til styrktar landsliðinu. LH þakkar stuðninginn.

Miðsala í stóðhestaveltunni hefst þriðjudaginn 19. apríl í netverslun á vef LH og er miðaverð 50.000 kr. Einn tollur er á hverjum seldum miða.

Miðasala á Allra sterkustu er í netverslun LH.

Við kynnum næstu 10 stóðhesta til leiks:

Ljósvaki frá Valstrýtu 8,54
Ljósvaki frá Valstrýtu hefur hlotið 10,0 fyrir tölt og stökk, 9,5 fyrir vilja og geðslag og fegurð í reið og 9,0 fyrir fet, hægt tölt og hægt stökk í kynbótadómi. Hann hefur einnig hlotið 9,0 í B-flokki gæðinga. Myndband af Ljósvaka

Dagfari frá Álfhólum 8,62
Dagfari frá Álfhólum hefur m.a.  hlotið í kynbótadómi 9,5 fyrir brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið og  9,0 fyrir tölt og stökk. Myndband af Dagfara

Árvakur frá Auðsholtshjáleigu 8,42
Árvakur frá Auðsholtshjáleigu hefur hlotið í kynbótadóm m.a. 9 fyrir fet og prúðleika og 8,5 fyrir tölt, brokk, samstarfsvilja, fegurð í reið og hægt fet.

Tumi frá Jarðbrú 8,61
Tumi frá Jarðbrú hefur hlotið í kynbótadómi fyrir sköpulag 8,56 og fyrir hæfileika 8,63, þar af 9 fyrir tölt, brokk, samstarfsvilja, fegurð í reið, háls/herðar/bóga og bak og lend. Myndband af Tuma

Hlekkur frá Saurbæ 8,48
Hlekkur frá Saurbæ hefur átt farsælan keppnisferil í A-flokki, fimmgangi, gæðingaskeiði og tölti. Hann hefur hlotið í kynbótadómi 9,0 fyrir skeið, vilja og geðslag og fegurð í reið. Myndband af Hlekk

Hersir frá Húsavík 8,51
Hersir hefur hlotið í kynbótadómi 8,57 fyrir sköpulag, þar af 9,5 fyrir háls og herðar; stór og bolléttur hestur, með góða fótagerð og hófa, langan og reistan háls og háar herðar. Í hæfileikaeinkunn fékk hann 8.34 (án skeiðs 8.95); hann fékk 6x9, 2x8,5. Það sem einkenndi umsagnir var mikill fótaburður, takthreint tölt og svifmikið brokk og stökk. Hersir er einstaklega þjáll og glæsilegur í reið. Myndband af Hersi

Knár frá Ytra-Vallholti 8,47
Knár frá Ytra-Vallholti er með 9,0 fyrir tölt, skeið, vilja og geðslag, fet og samræmi í kynbótadómi og hefur skilað hátt dæmdum afkvæmum. Myndband af Kná

Þytur frá Skáney 8,49
Þytur frá Skáney er með 9 fyrir tölt, stökk, bak og lend, samræmi, hófa og prúðleika í kynbótadómi. Hann er farsæll keppnishestur í fimmgangi og A-flokki. Myndband af Þyt

Grímur frá Skógarási 8,25
Grímur frá Skógarási hefur átt farsælan keppnisferil í fjórgangi og tölti. Hann hefur hlotið 9,0 fyrir tölt, brokk, stökk, vilja og geðslag, fegurð í reið, hægt stökk og hægt tölt í kynbótadómi. Myndband af Grími

Adrían frá Garðshorni á Þelamörk 8,63
Adrían frá Garðshorni á Þelamörk 8,63.  Adrían er ungur og upprennandi kynbótahestur sem stóð efstur fimm vetra stóðhesta á LM 2018. Hann var sýndur án skeiðs í dómi 2019 þar sem hann hlaut 4 x 9,5 (fyrir tölt, vilji/geðslag, fegurð í reið og hófar) og 3 x 9 (fyrir frampart, bak/lend og samræmi). Adrían er sterkættaður, báðir foreldrar hafa hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi, og lundin einstaklega góð. Finna má meiri upplýsingar um Adrían á facebooksíðu hans. Myndband af Adrían af WorldFeng. Myndband af Adrían á stóðhestaveislunni 2019.