Evrópumót yngri keppenda í TREK

03.10.2013
Maude Radelet og Óðinn
Evrópumótið í TREK í hestaferðamennsku 2013 var haldið við bæinn Mont-le-Soie í Belgíu. Formaður og varaformaður Landssambands hestamannaélaga voru gestir mótsins. Þar fréttu þeir að liðsstjóri svissnesku sveitarinnar, Maude Radelet hefði náð góðum árangri í TREK-keppnum á íslenskum hesti. Þeir fengu Maude til að ræða reynslu sína í stuttu viðtali.

Evrópumót TREK í hestaferðamennsku 2013 var haldið við bæinn Mont-le-Soie í Belgíu. Formaður og varaformaður Landssambands hestamannaélaga voru gestir mótsins. Þar fréttu þeir að liðsstjóri svissnesku sveitarinnar, Maude Radelet hefði náð góðum árangri í TREK-keppnum á íslenskum hesti. Þeir fengu Maude til að ræða reynslu sína í stuttu viðtali.



Radelet var spurð að því hvernig það hefði komið til að hún tók þátt í keppninni á íslenskum hesti og hvernig hann hefði reynst.

Maude Radelet:

“Frá árinu 2010 hef ég haft afnot af þessum hesti, sem mér var lánaður í upphafi til að taka þátt í TREK -keppni. Hann heitir Óðinn og var þá 8 vetra. Á þessum tíma hafði ég enga reynslu af íslenska hestinum, og vissi ekkert um gangtegundir hans, né um íslenska reiðlist.

Það, sem einkum er snúið í TREK-keppni, þegar keppt er á íslenskum hesti, sem hefur bæði tölt og skeið, er að halda honum ótrufluðum á hreinum gangtegundum, sem gilda í TREK, en það eru fet, brokk og stökk (valhopp). Ég varð því að einbeita mér að því að ná fram þessum þremur gangtegundum fullkomlega hreinum.

Ég fékk Óðinn sem sagt í maí 2010. Þremur vikum seinna unnum við svissneska landsmótið í TREK í flokki yngri keppenda. Í september sama ár tókum við þátt í Evrópumóti í TREK og þar náðum við 2. sæti.

Þá sá ég að þetta gekk mjög vel og ákvað að kaupa hestinn. Árið 2011 tókum við þátt í landsmóti Sviss í TREK og lentum í 2. sæti. Það ár tók ég aftur þátt í Evrópumóti yngri flokks reiðmanna og náði þar öðru sæti. Árið 2012 lentum við enn í öðru sæti á svissneska landsmótinu í TREK og einnig í öðru sæti á heimsmeistaramóti. Og 2013, sem var fyrsta ár mitt í eldri flokki keppenda, náði ég fyrsta sæti á Svissneska landsmótinu.

Mér finnst íslenski hesturinn hafa góða skapgerð fyrir TREK-mót. Hann er í senn mjög rólegur, en afar ákveðinn og líflegur. Hann hefur mikinn vilja. Hann hikar ekki og fer hratt yfir. En samt er vandalaust að stöðva hann skyndilega. Vandamálin eru því fólgin í því að hesturinn hefur fleiri gangtegundir en aðrir hestar, og það þarf að rækta með honum brokk og stökk (valhopp). Kostirnir eru skapgerð og vilji.”

Aðspurð um keppnisbrautina í þrautakeppninni og hindranir, sem hesturinn verður að komast yfir, segir Radelet:

“Stærð hestsins er ekkert vandamál. Hann hefur svo eindreginn vilja. Hann kemur að hindrununum á stökki og fær góða viðspyrnu. Þegar búið er að þróa valhopp og stökk þá eru hindranirnar ekkert vandamál.

Það er ljóst að íslensku hestarnir eru ekki vanir að stökkva yfir hindranir. Það er ekki hluti af þeirra þjálfun. En strax og þeir venjast því, koma kostir viljans í ljós. Óðinn hikar aldrei og hann stekkur yfir allt. Hann er 1.40m á hæð. Stundum eru gerðin sem hann þarf að stökkva yfir 1.20m, og hann fer það auðveldlega.

Skilaboð mín til Íslendinga, sem hafa áhuga á TREK-keppninni, eru þessi: Það eru lítil vandamál og miklir möguleikar. Vandamálin eru aðeins þau að hesturinn er fjölhæfari en aðrir. Það þarf að styrkja valhoppið og brokkið og tryggja að hesturinn haldi hvorri tveggja gangtegundinni ótruflaðri. Það er bæði mikilvægt í þrautahluta keppninnar, en ekki síður í þeim hluta, sem felst í að hafa fullkomið vald yfir gangtegundunum þremur, feti, brokki og valhoppi. Þegar brokkið og valhoppið er orðið hreint, þá koma allir kostir hestsins í ljós.

Aðspurð hvort hún teldi mögulegt að skipuleggja TREK-keppni á Íslandi, þar sem íslensku gangtegundirnar væru hluti keppninnar, svarar Maude Radelet:

Ég held að það væri hægt. Í þrautakeppninni gæti til dæmis töltið notið sambærilegrar stöðu og brokk, og það ætti einnig að geta gilt um þann hluta keppninnar, sem varðar vald yfir gangtegundum.” 

trec