Fákur fagnar 100 ára afmæli sínu í dag

24.04.2022

Hestamannafélagið Fákur, sem er eitt stærsta og öflugasta íþróttafélag Reykjavíkur, er 100 ára í dag, 24. apríl.

Í tilefni af afmælinu stóðu Fákur og Landssamband hestamannafélaga (LH) fyrir reið um miðbæinn í gær. Kom þar saman fríður flokkur hesta og manna en í fylkingarbrjósti riðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á stóðhestinum Eldi frá Torfunesi, Hjörtur Bergstað formaður Fáks, Guðni Halldórsson formaður LH og Sigurbjörn Bárðarson stórknapi og landsliðsþjálfari.

Riðið var frá BSÍ, upp að Hallgrímskirkju þar sem gerð var stutt áning og nokkur lög tekin, ásamt því sem borgarstjóri og formaður LH ávörpuðu hópinn. Þaðan var riðið sem leið lá, niður Skólavörðustíginn, Bankastrætið, um Austurstræti og yfir Austurvöll og endað á því að láta spretta úr spori eftir Tjarnargötunni og í gegn um Hljómskálagarðinn. Reiðin um miðbæinn heppnaðist í alla staði vel og vakti lukku þátttakenda og annarra viðstaddra.

Meðfylgjandi myndir tók Gígja Einarsdóttir ljósmyndari.