FEIF-ráðstefnan 2025

07.02.2025
Formannafundur FEIF 2025

FEIF-ráðstefnan fór fram í Vín í Austurríki um liðna helgi, með fulltrúum frá 18 aðildarlöndum. Fyrir Íslands hönd sóttu þingið FEIF-nefndafólkið okkar þau Hulda Gústafsdóttir, Sigurbjörn Bárðarson, Herdís Reynisdóttir, Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir og Friðrik Már Sigurðsson og Þorvaldur Kristjánsson f.h. Búnaðarsambands Íslands. Að auki fóru á vegum LH þau Linda Björk Gunnlaugsdóttir, Unnur Rún Sigurpálsdóttir, Ólafur Þórisson, Hinrik Þór Sigurðsson og Berglind Karlsdóttir og fóru þau með atkvæði Íslands á nefndafundum.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar Mike Weishaupt fjallaði um rannsóknir er varða hestavelferð, m.a. um rannsókn sem gerð var sl. sumar um endurheimt skeiðkappreiðahesta og æskilegan hvíldartíma á milli spretta.

Veitt voru hinar ýmsu viðurkenningar eins og vaninn er. Þýskaland hlaut æskulýðsverðlaun ársins en þar var yngri kynslóðinni m.a. boðið upp á fjarkennslu í formi rafrænna fyrirlestra, en það auðveldar aðgengi barna og unglinga að fræðslu, Bretland hlaut „Leisure riding“ verðlaun ársins, reiðkennari ársins er valinn í netkosningu og í þetta sinn hlaut Norðmaðurinn Erik Andersen titilinn. Erik er mikilsvirtur reiðkennari í Noregi en einnig reyndur keppandi og dómari.

Ráðstefnunni er svo skipt upp í nefndir þar sem fara fram umræður um þær breytingartillögur sem lagðar eru fram og taka eiga gildi 2026.

Á formannafundi voru fjörlegar umræður um hin ýmsu mál. M.a. var rætt um að taka upp eins konar vinalandakerfi, til að efla tengsl milli landa og til að auðvelda minni löndum aðgengi að FEIF-samfélaginu. Rætt var um leiðir til að auka gagnsæi í stjórnkerfi FEIF og skilning á ólíkum aðildarlöndum. Einnig var rætt um leiðir til að auka tekjuöflun FEIF og um hlutverk og kosningu varaforseta FEIF.

Á sportnefndarfundi voru rædd drög að nýju spjaldakerfi og agaviðurlögum í regluverki FEIF. Markmið þessa nýja kerfis er að einfalda spjaldanotkun, skýra betur merkingu þeirra og koma á einn stað í regluverkinu ákvæðum um viðurlög við brotum á keppnisreglum. Vonir standa til að nýjar spjaldareglur muni auðvelda dómurum og keppendum skilning á agareglum, spjaldanotkun og viðurlögum við brotum. Tillagan verður rædd og útfærð frekar á fundum Sportnefndar FEIF og stefnt er á að leggja hana fram til samþykktar á aðalfundi FEIF 2026. Önnur mál sem rædd voru í Sportnefndinni var m.a. leyfileg þyngd hófhlífa í íþróttakeppni, stytting tíma til að koma hesti inn í rásbása í kappreiðum og úthlutun dómara frá sérsamböndum líkt og gert er á Íslandi, í stað þess að mótshaldarar velji dómara til dómstarfa eins og tíðkast víða. Hulda Gústafsdóttir hlaut endurkjör í nefndina til næstu tveggja ára.

Á æskulýðsnefndarfundi fór fram kynning á þeim æskulýðsnefndarviðburðum sem fram undan eru; „Youth Camp“ á Íslandi í júlí, „Young leaders seminar“ í Danmörku í haust og „Youth Cup“ í Þýskalandi sumarið 2026. Löndin skiptust á hugmyndum um viðburði og starfsemi á vegum æskulýðsnefnda og fóru allir heim með nýjar hugmyndir. Fundurinn var sammála um að fræðsla og menntun er öflugasta tækið til að mæta þeim áskorunum sem fram undan eru í hestaheiminum.

Samningur LH og FEIF um „FEIF Youth Camp 2025" var undirritaður af forseta FEIF Gundulu Sharman og formanni LH Lindu Björk Gunnlaugsdóttur.

Á „Leisure Riding“ fundi var rætt um viðburði fyrir hinn almenna hestamann. Rætt var um viðburði fyrir alþjóðlegan dag íslenska hestsins, sem er 1. maí ár hvert. Mikil umræða var um velferðarmál í tengslum við almenna reiðmennsku og hestahald og hvernig hægt er að ná til breiðari hóps félagsmanna. Þórhildur Katrín Stefánsdóttir var kjörin ný í nefndina.

Á menntanefndarfundi var til umræðu endurskoðun á Mennta-Matrixu FEIF sem nefndin hefur hafið vinnu við og óskar nú eftir tillögum og athugasemdum frá menntanefndum annarra landa. Rætt var um hvernig menntakerfið hefur þróast í mismunandi löndum, sérstaklega með velferðarmál að leiðarljósi. Einnig var fjallað um komandi sameiginlega ráðstefnu sport- og menntanefndar í Danmörku nú í mars, þar sem verður afar áhugaverð dagskrá, bæði verkleg og bókleg. Enn eru nokkur laus sæti og fyrir áhugasama má nálgst frekari upplýsingar á vefsíðu FEIF.  

Austurríska Íslandshestasambandið (Österreichischer Islandpferde Verband, ÖIV) tók höfðinglega á móti ráðstefnugestum og stóð m.a. fyrir afar áhugaverðri heimsókn í Spænska reiðskólann í Vín þar sem fylgst var með þjálfunarstund á Lipizzaner-stóðhestum skólans.

Heilt yfir voru umræður góðar og uppbyggilegar og margar góðar hugmyndir ræddar á fundunum. Ísland á öfluga fulltrúa í öllum fastanefndum FEIF enda er afar mikilvægt að við látum okkur alþjóðasamstarf varða og séum leiðandi í allri umræðu á alþjóðavísu. Næsta FEIF-ráðstefna verður haldin í Ungverjalandi 2026.

Linda og Gundula undirrita samning um Youth Camp 2025.

Hluti íslenska hópsins fyrir utan Spænska reiðskólann í Vín.