FEIF-þing 2020

03.02.2020

Ársþing FEIF var haldið dagana 31. janúar til 1. febrúar á Hótel Örk í Hveragerði. Á þingið mættu um 120 fulltrúar frá aðildarlöndum FEIF.

Alexandra Montan Grey var kosin ný í stjórn FEIF í stað Doug Smith sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Aðrir í stjórn eru Gunnar Sturluson forseti FEIF, Gundula Sharman formaður æskulýðsnefndar, Inge Kringeland fomaður kynbótanefndar, Jean-Paul Balz formaður keppnisnefndar, Mia Esterman fomaður nefndar um frístundareiðmennsku og Silke Feuchthofen formaður menntanefndar.

Breytingar í nefndum urðu þær að Eggert Hjartarson var kosinn í nefnd um frístundareiðmennsku í stað Hlínar Jóhannesdóttur sem ekki gaf kost á sér og Olil Amble var kosin í keppnisnefnd í stað Alexandru Montan Grey.

Aðrir Íslendingar í nefndum FEIF eru: Þorvaldur Kristjánsson í kynbótanefnd, Hulda Gústafsdóttir í keppnisnefnd, Sveinn Ragnarsson í menntanefnd og Helga B. Helgadóttir í æskulýðsnefnd.

Stærstu breytingar sem samþykktar voru á regluverki FEIF eru breytingar á kynbótakerfinu, vægi byggingadóms og hæfileikadóms er nú  35/65 í stað 40/60 og einnig eru breytingar á vægi á einstökum þáttum bæði í byggingadómi og hæfileikadómi.

Tvö ný lönd voru samþykkt sem fullgild aðildarlönd FEIF, Ástralía og Ungverjaland og eru aðildarlöndin nú orðin 22 alls.

Suzan Beuk hlaut viðurkenningu sem þjálfari ársins eftir netkosningu en hún var þjálfari ungmennaliðs Þýskalands sem náði frábærum árangri á HM 2019. Æskulýðsbikar FEIF hlaut Austurríki fyrir kraftmikið æskulýðsstarf á síðasta ári.

Heiðursverðlaun FEIF hlutu Doug Smith fráfarandi varaformaður FEIF og Jón Baldur Lorange verkefnastjóri WorldFengs hjá Bændasamtökum Íslands.

Almenn ánægja var með umræður á þinginu og ákveðið var að næsta FEIF þing verði haldið í Noregi 2021.

Þegar þinginu sleppti var boðið var upp á hliðardagskrá fyrir gesti FEIF-þingsins. Stjórn Meistaradeildarinnar bauð þinggestum á fyrsta mót ársins í TM-reiðhöllinni í Víðidal þar sem keppt var í fjórgangi. Í tilefni af 70 ára afmæli Landssambands hestamannafélaga bauð LH upp á rútuferð á föstudagskvöldinu sem endaði með veislu í Rangárhöllinni. Fyrst var farið að Sumarliðabæ í Ásahreppi þar sem gestir fengu að líta glæsilega þjálfunaraðstöðu sem þar hefur risið.  Síðan var farið í Rangárhöllina þar sem nýjar keppnisreglur um gæðingafimi voru kynntar. Jakob Svavar Sigurðsson og Hanna Rún Ingibergsdóttir sýndu gæðingafimi á hestum sínum og Hulda Gústafsdóttir og Mette Mannseth, sem eru í starfshópi LH um gæðingafimi, kynntu sýninguna og útskýrðu nýju reglurnar fyrir gestum. Að lokum hélt Eiríkur Vilhelmsson framkvæmdastjóri Landsmóts 2020 kynningu um Landsmót og hvatti gesti til að mæta á Hellu í sumar.

Meðfylgjandi myndir eru frá heimsókn hópsins að Sumarliðabæ og frá kynningu á gæðingafimi í Rangárhöllinni.