FEIF Youth Cup hefst í dag

17.07.2024

Nú fer fram FEIF Youth Cup í Sviss. Sex þátttakendur eru frá Íslandi, þau flugu út til Sviss á fimmtudaginn síðasta og hafa nýtt tímann vel til að kynnast aðstæðum þar úti. Í dag hefst svo keppnin og er hægt að fylgjast með henni í IceTest smáforritinu.

Ferðin hefur fram að þessu verkið mikið ævintýri fyrir þátttakendur, veðrið hefur verið til smá trafala sökum mikilla rigninga og þrumuveðurs. En hér má lesa brot úr pistil frá Dagbjörtu Huldu Guðbjörnsdóttur en hún, Rakel Katrín Sigurhansdóttir og Elísabet Jóhannsdóttir fylgja hópnum í ferðinni.

 

Svisslendingar eru mjög stolt af sjálfstæði sínu og herinn skipar stóran sess hér í landi og frá unga aldri eru þau vön að fara í sumarbúðir þar sem neðanjarðar birgi eru nýtt sem gisting. Fyrir okkur og krakkanna hljómar það undarlegt og skrítin tilhugsun að sofa neðanjarðar en það kom a.m.k. mér á óvart hvernig aðstæður eru og rúmin svipuð og fjallakofar heima nema engir gluggar.

Hér er fótarferðartími upp úr kl 6 (4 á Íslandi) og því fer hópurinn í byrgið kl 20 og ró þarf að vera komin á hér kl 22 á kvöldin.

Á laugardaginn fórum við til Münsingen. Dagurinn fór í að koma okkur til Sólfaxa, koma hestunum okkar aftur inn í hesthúsið þar sem búið var að dreifa hálmi/stráum í stíurnar þar sem svæðið var mjög blautt. En þar sem Helgi Leifur sagði okkur að sínir hestar mættu eingöngu borða súrhey og sumir hestarnir byrjuðu að smakka á hálminum þá fór hellings vinna í að ýmist moka honum út eða finna nýjar stíur.

Svæðið hjá hesthúsinu var mjög blautt eftir nóttina. Sumir skór voru ekki orðnir þurrir eftir þrumuveðrið daginn áður og hluti af krökkunum ákváðu að fórna strigaskónum sínum þótt þeim hafi verið bent á að þau yrði hvort heldur sem er blaut í fæturna.

Dagurinn fór líka í að búa til beitarhólf fyrir hestanna. Krakkarnir fóru með hestanna sína í dýralæknisskoðun sem allir stóðust en dýralæknir hafði þó áhyggjur af einum hesti þegar líða tæki á vikuna og mælti með að fundinn yrði annar, ef hægt væri en hitaspáinn hér fyrir fimmtudag og föstudag er 29-30°c.

Catherine sem heldur utan um skipulagið hér er þaulreynd og vel undirbúin og hafði því gert ráð fyrir að þessi staða gæti komið upp hjá einhverjum og var með auka hest hér í hesthúsi á Sólfaxa svo það fór eins vel og hægt var. Þá um kvöldið var krökkunum skipt upp í alþjóðleg lið.

Á sunnudaginn tóku liðsstjórar við þeim í morgunmatnum og voru þau á fyrirlestrum fyrir hádegi og fóru öll í einn reiðtíma, hvert með sínu liði. Inn á milli unnu þau verkefni með sínum liðum og sinntu hestunum þegar þau gátu. Sjálf eyddi ég deginum aðallega í að laga til stíurnar fyrir hestanna og sá um að þau fengju að borða o.s.fv. síðan eftir kvöldmat var einn fyrirlestur áður en við héldum aftur í byrgið.

Á mánudaginn fór hvert lið í tvo reiðtíma, borðuðu morgun- og hádegismat með sínum liðum. Ég hef aðallega hitt þau í hesthúsinu þegar þau eru þar eða á kaffistofunni þar sem við CL getum sést niður og slakað aðeins á milli anna. Við fengum hrós á mánudaginn fyrir hvað stíurnar væru fínar en krakkarnir hafa staðið sig mjög vel þegar þau hafa átt frítíma við að sinna hestunum og gera hreint hjá þeim. Eftir kvöldmat var síðan þjóðarkvöldið þar sem hvert land kemur með atriði. Krakkarnir ætluðu að hafa kviss en þegar við áttuðum okkur á að atriðið mætti bara vera 5-7 mín. Þá ákváðum við að vera ekkert að finna upp hjólið og sýndum YouTube myndbönd, fyrst The true Icelandic Horse sem sýnir hvað hestinum okkar þykir um að vera stundum kallaður Pony og svo The Hardest Karaoke Song in the World eða The A to Ö of Iceland. Atriðin voru mjög fjölbreytt og eftir þau bauð hvert land upp á nammi eða góðgæti frá heimalandinu og buðum við upp á Þrista. Það kvöld kom aftur þrumuveður og stóð yfir fram eftir nóttu.

Við komuna upp í hesthús á þriðjudag beið okkar CL að setja alla hesta út í beitarhólf eða í aðra aðstöðu og gefa morgungjöf þar. Krakkarnir fóru með sínum liðum í reiðtíma og unnu hópaverkefni en þess á milli stóðu þau sig mjög vel í að aðstoða mig sem eyddi lunganu úr deginum í að moka út blautan spænir og hálm til að stíurnar gætu mögulega þornað aftur í hitanum sem gekk upp að mestu.

Fyrir kvöldmat voru þjálfarar kvaddir og viðtók sýnikennsla í fjórgang og fimmgang. Áður en farið var í byrgið vann hópurinn vel saman og græjuðu stíurnar fyrir nóttina.

Dagurinn í dag byrjaði að ferð til NPZ eða Svissnesku hestasamtakanna og sáum þar ýmsar aðrar hestategundir, fylgdumst með heimsmeistaramótinu í Vaulting eða fimleikum á hestum. Síðan var okkur boðið upp á margskonar osta, brauð, álegg og ostasúpu. Nú erum við á leið í Fit to Compet skoðun og svo byrjar keppnin kl 17 í dag á Trail. Hægt er að fylgjast með mótinu inn á IceTest.

Áfram Ísland!

Krakkar munið: Njóta, hafa gaman og styðja hvert annað