Fjögur gullverðlaun á Norðurlandamóti

12.08.2024
Védís Huld Sigurðardóttir og Búi frá Húsavík. Mynd: Hestefotograf Melissa.

Norðurlandmót íslenska hestsins fór fram dagana 8. til 11. ágúst. Mótið gekk vel og stóðu íslensku keppendurnir sig vel þrátt fyrir að vera flestir á lánshestum og höfðu haft knappan tíma til að kynnast hestununum áður en haldið var í braut. Aðeins einn hestur í íslenska liðinu kom frá Íslandi en aðrir knapar fengu hesta lánaða víðs vegar um Evrópu.

 

Fimmgangur

Viðar Ingólfsson var einni íslenski keppandinn í F1 í fullorðinsflokk. Hann var á hestinum Týr från Svala Gård. Þeir hlutu 6,50 í forkeppninni og fóru beint í A úrslit þar sem þeir enduðu í 6. sæti.

Í ungmennaflokki átti Ísland þrjá keppendur í fimmgangi, þau Hulda María Sveinbjörnsdóttir á Hetju frá Árbæ og hlutu þær í forkeppni 6,37. Matthías Sigurðsson á Páfa frá Kjarri sem einnig hlutu 6,37 og tryggði það þeim báðum sæti í A úrslitum. Védís Huld Sigurðardóttir var á Búa frá Húsavík og hlutu þau 5,87 sem dugði þeim inn í B úrslit.

Védís Huld og Búi sýndu þó að þau áttu nóg inni, sigruðu B úrslitin með 6,86 og tóku svo A úrslitin með trompi með einkunn uppá 7,17. Í öðru sæti voru Matthías og Páfi með 6,79 og í þriðja sæti Hulda María og Hetja með 6,43. Þvílíkur árangur hjá ungmennunum okkar í fimmgangi!

Fjórgangur

Í ungmennaflokki átti Ísland fjóra keppendur í fjórgangi. Ragnar Snær Viðarsson keppti á Gimsteini frá Íbishóli og tryggðu þeir sér sæti í A úrslitum með 6,97 í einkunn. Hekla Rán Hannesdóttir keppti á hestinum Huginn frá Halakoti og hlutu þau 6,63 og sæti í B úrslitum. Guðný Dís Jónsdóttir á Kristal frá Jaðri og Selma Leifsdóttir á Varúlfi frá Eylandi komust ekki í úrslit.

Ragnar Snær endaði í fjórða sæti í A úrslitum með 6,77 í einkunn.

Gæðingaskeið

Í gæðingaskeiði áttum við fimm fulltrúa tvo í fullorðinsflokki og þrjá í ungmennaflokki.

Sigurður V. Matthíasson stóð efstur íslensku keppendanna á Júlíu från Agersta með 7,04 í einkunn og hlutu þau fjórða sæti. Í ungmennaflokki urðu þær Hulda María Sveinbjörnsdóttir á Hetju frá Árbæ í þriðja sæti með 6,25 í einkunn. Embla Lind Ragnarsdóttir á Sælu frá Vedbyboställe endaði í 9. sæti. Matthías Sigurðsson og Viðar Ingólfsson hættu keppni eftir að fyrri sprettur misfórst.

Það var svo hetjan okkar frá HM hún Fjalldís frá Fornusöndum sem var sigurvegari í gæðingaskeiðinu. Knapinn hennar er Sigurður Óli Kristinsson en þau keppa fyrir Danmörku og hlutu 8,67 í einkunn.

Skeið 250m

Í ungmennaflokki áttum við tvo keppendur í 250m skeiði. Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir og Sefja frá Kambi fóru á 25,58 og hlutu þar með 6. sæti, en Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson og Blikka frá Þóroddsstöðum náðu því miður ekki gildum tíma.

Í fullorðinsflokki kepptu Sigurður Vignir Matthíasson og Júlía från Agersta sem fóru sprettinn á 24,71 sek.

 

100m skeið

Í 100m skeiði komust engir íslenskir knapar í verðlaunasæti. Í fullorðinsflokki keppti Sigurður Vignir Matthíasson og Júlía från Agersta og fóru þau sprettinn á 8,08.

Í ungmennaflokki endaði Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson í fimmta sæti á Blikku frá Þóroddsstöðum, en þar tóku einnig þátt þær Harpa Dögg Bergmann og Embla Lind Ragnarsdóttir 

 

Tölt

Í ungmennaflokki áttum við þrjá fulltrúa í tölti, þau Guðný Dís Jónsdóttir, Ragnar Snær Viðarsson og Selmu Leifsdóttur.

Bestum árangri í forkeppni náði Ragnar Snær á Gimsteini frá Íbíshóli en þeir urðu í öðru sæti með einkunnina 6,87. Selma Leifsdóttir á Varúlfi frá Eylandi og. Guðný Dís á Kristali frá Jaðri komust ekki í úrslit.

Í A úrslitum stóðu svo Ragnar Snær og Gimsteinn uppi í 2.-3. sæti með einkunnina 7.06, jafn Rakel Brattalid Tindskard frá Færeyjum á Silas vom Forstwald.

Í fullorðinsflokki kepptu þeir Sigurður Siguðarson á Tígli fra Kleiva og Viðar Ingólfsson á Tý från Svala Gård. Sigurður og Tígull hlutu 7,70 í einkunn jafnir Andreas Kjelgaard á Stjörnustæl fra Hybjerg en lægri á aukastöfum. Einkunnin dugði til keppni í B úrslitum, en Sigurður og Tígull forfölluðust svo í úrslitum. Viðar og Týr hlutu 6,50 og náðu ekki inn í úrslit.

 

T2 - slaktaumatölt

Í slaktaumatölti áttum við tvo fulltrúa í ungmennaflokki.

Herdís Björg Jóhannsdóttir á Elskamin von Erkshausen voru efstar eftir forkeppni, ásamt Lilly Björsell á Börk fra Kleiva en þær hlutu báðar 7,13 í einkunn.

Hulda María og Hetja frá Árbæ hlutu 6,10 í einkunn og í níunda sæti eftir forkeppni en þær drógu sig út úr b-úrslitum.

Í A úrslitum áttu Herdís og Elskamin flotta sýningu sem skilaði þeim aftur 7,13 í einkunn og öðru sæti.

Gæðingakeppni

Í B flokki fullorðinna keppti Sigurður Sigurðarson á Tígull frá Kleiva. Þeir áttu góða sýningu og uppskáru 8,646 í einkunn og annað til þriðja sætið ásamt Svani frá Kringeland og Ingólfi Pálmasyni sem keppa fyrir hönd Noregs. Sigurður og Tígull gátu því miður ekki tekið þátt i úrslitum.

Í unglingaflokki áttum við þrjá fulltrúa. Ragnar Snær Viðarsson var efstur eftir forkeppni á Skorra frá Þúfu í Landeyjum með 8,59 í einkunn.

Elva Rún Jónsdóttir á Bellu frá Blönduósi varð fimmta með 8,48 í einkunn. Dagur Sigurðarson og Rögni frá Minni-Völlum endaðu svo sjöttu eftir forkeppni með 8,47 í einkunn.

Í A-úrslitum var það Dagur Sigurðarson á Rögni frá Minni-Völlum sem hampaði þriðja sætinu. Ragnar Snær varð sjöundi og Elva Rún endaði í áttunda sæti.

Í B flokki ungmenna áttum við tvo fulltrúa.

Hekla Rán Hannesdóttir og Huginn frá Halakoti stóðu efst eftir forkeppni með 8,55 í einkunn. Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal og Eyvar frá Álfhólum hlutu fjórðu bestu einkunnina, 8,51 og flugu því einnig inn í A úrslitin.

Úrslit í B flokki ungmenna voru gífurlega jöfn en Guðmar og Eyvar höfðu sigur með 8,676 í einkunn. Hekla Rán og Huginn enduðu fimmtu með 8,544 í einkunn.

Í forkeppni í A flokki fullorðinna áttum við tvo fulltrúa. Gormur frá Villanora og Þórður Þorgeirsson áttu frábæra sýningu og leiddu þeir með 8,776. Skutull frá Hafsteinsstöðum og Jón Bjarni Smárason og gerðu einnig vel og fengu 8,516 í einkunn og sæti í B-úrslitum. Þar mátti litlu muna að þeir tryggðu sig áfram en enduðu í 9. sæti með 8,611 í einkunn.

Sigurvegarar í A flokki gæðinga voru þeir Gormur og Þórður með 8,967.

Í a-flokki ungmenna áttum við þrjá fulltrúa sem allir tryggðu sér sæti í A úrslitum.

Matthías Sigurðsson á Gusti frá Stóra-Vatnsskarði voru efstir eftir forkeppni með einkunnina 8,668 og í öðru sæti voru þeir Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal á Sólbjarti frá Akureyri, með 8,492. Sigurður Baldur Ríkharðsson og Júní frá Brúnum voru fjórðu eftir forkeppni, hlutu 8,396 í einkunn. Júní var einn af fulltrúum Ísland á HM í fyrra, þá með Benjamín Sandi Ingólfssyni.

Í A úrslitum voru það svo þeir Matthías og Gustur sem sigruðu með 8,673 í einkunn. Guðmar Hólm á Sólbjarti komi svo rétt á hælum þeirra á með 8,644 annað sætið en Sigurður og Júní enduðu í áttunda.

Flottur árangur á sterku, spennandi og vel sóttu Norðurlandamóti.