FM 2009: Mikil stemning og ,,allt að smella"

22.06.2009
Nú styttist óðum í Fjórðungsmót á Kaldármelum, dagana  1. – 5. júlí.  Mikil stemning virðist ríkja í hestamannafélögunum sem þátt taka og raunar langt út fyrir raðir þeirra.  Hestamenn virðast ætla að fjölmenna á Kaldármela fyrstu vikuna í júlí. Endanleg dagskrá liggur nú fyrir á heimasíðu FM:  www.lhhestar.is/fm2009.  Þar er einnig að finna frekari upplýsingar fyrir þátttakendur og gesti. Nú styttist óðum í Fjórðungsmót á Kaldármelum, dagana  1. – 5. júlí.  Mikil stemning virðist ríkja í hestamannafélögunum sem þátt taka og raunar langt út fyrir raðir þeirra.  Hestamenn virðast ætla að fjölmenna á Kaldármela fyrstu vikuna í júlí. Endanleg dagskrá liggur nú fyrir á heimasíðu FM:  www.lhhestar.is/fm2009.  Þar er einnig að finna frekari upplýsingar fyrir þátttakendur og gesti.
Um 350-370 hross á FM

Að mótinu standa hestamannafélögin fimm á Vesturlandi, þ.e. Dreyri, Faxi, Glaður, Snæfellingur og Skuggi.  Félagar úr þessum hestamannafélögum hafa haft í nógu að snúast undanfarið en ,,allt er þetta að smella“ eins og einn þeirra komst að orði.
Mótstjóri er Baldur Björnsson, Múlakoti, úr hestamannafélaginu Faxa.

Í ár hefur verið bryddað uppá þeirri nýbreytni að stækka radíusinn hvað varðar þátttakendur á FM.  Auk ofangreindra hestamannafélaga sem að mótinu standa, eru eftirfarandi félög þátttakendur á mótinu:
-    Kjós: Adam
-    Vestfirðir:   Hending, Kinnskær og Stormur
-    Siglufjörður: Glæsir
-    Húnaþing vestra:  Þytur
-    Austur-Húnavatnssýsla:  Neisti og Snarfari
-    Skagafjörður:  Stígandi, Léttfeti og Svaði

Þátttaka er mjög góð.  Að sögn Bjarna Jónassonar, framkvæmdastjóra FM stefnir í 350-370 hross í keppni á Kaldármelum.  Þess má geta að bæði tölt og skeið eru opin, þ.e. þátttaka er ekki einskorðuð við ofangreind hestamannafélög. 

Í skeiði keppa um 25 hross og í töltinu eru þátttakendur um 35.  Lokatöltlista er að finna á heimasíðu FM. Reikna má með um 75 þátttakendum alls í barna, unglinga og ungmennaflokki.

Mjög stór hópur kynbótahrossa náði lágmörkum eða rétt um eitt hundrað skv. hrossaræktarráðunauti og nú lítur svo út að um 86 kynbótahross verði sýnd á FM2009. 

Beitarhólf verða fyrir hross á mótssvæðinu. Svæðið verður stikað upp og fólk þarf að koma með rafmagnsgirðingu sjálft.  Nánari upplýsingar fyrir þátttakendur er að finna á heimasíðu FM.

Veðurguðirnir spila fyrir dansi og frændur þeirra lofa góðu veðri
Á fjölmennum hestamannamótum eru veitingar, gistiaðstaða og salernismál ávallt ofarlega í huga gesta og þátttakenda.  Reynt verður að sinna þessum grunnþörfum gesta af bestu getu.  Að sögn Bjarna Jónassonar, framkvæmdastjóra er gistiaðstaða í grenndinni að fyllast en nægt pláss er á tjaldsvæðinu og er aðstaða á tjaldsvæði innifalin í miðaverði.  Veitingar verða í höndum Hótel Eldborgar og Gæðakokka í Borgarnesi, lögð verður áhersla á heimilismat og grillmat. Nætursala veitinga verður starfrækt, ,, það fer enginn svangur að sofa“ segir Bjarni framkvæmdastjóri og er rokin af stað í frekari undirbúning.
Hinir ýmsu trúbadorar munu síðan troða upp í veitingatjaldi á kvöldin og munu hljómsveitirnar Matti og Draugabanarnir og Veðurguðirnir spila fyrir dansleiki á föstudags- og laugardagskvöld.
Án efa verður fjör og gaman úti í guðs grænni náttúrunni á Kaldármelum og hina Veðurguðina sem ekki eiga sess í hljómsveitinni er löngu búið að panta allan tímann!

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu FM:   http://fm2009.lhhestar.is/