Forkeppni í fjórgangi á HM í Berlín

06.08.2019
Þriðjudaginn 6. ágúst hófst íþróttakeppni heimsmeistarmótsins í Berlín með forkeppni fjórgangi. Íslendingar tefldu fram fjórum knöpum í flokki fullorðinna og tveimur í ungmennaflokki. Efstur eftir forkeppni er Árni Björn Pálsson og Flaumur frá Sólvangi með 7,67 í einkunn, annar er Jóhann Skúlason á Finnboga frá Minni-Reykjum með 7,43. Ásmundur Ernir Snorrason og Frægur frá Strandarhöfði enduðu sjöttu og eru þar með efstir inn í b-úrslit sem fara fram á laugardag. Máni Hilmarsson og Lísbet frá Borgarnesi áttu ekki sinn besta dag og náðu ekki í úrslit. Ásdís Ósk Elvarsdóttir og Koltinna frá Varmalæk eru í öðru sæti í flokki ungmenna og Hákon Dan Ólafsson og Stirnir frá Skirðu eru fjórðu inn í úrslit. Öll a-úrslit fara fram á sunnudag og verður spennandi að fylgjast með okkar fólki þar.
 
Reiðdómur 5 vetra hrossa fór fram á kynbótabrautinni í dag. Fulltrúar Íslands í flokki fimm vetra hrossa eru þau Hamur frá Hólabaki og Mjallhvít frá Þverholtum. Það er skemmst frá því að segja að öll kynbótahross lækkuðu sinn dóm í dag og voru íslensku hrossin tvö engin undantekning, eftir daginn standa þau bæði önnur í sínum flokki skammt á eftir efstu hrossum. Yfirlitssýning fer fram á fimmtudag.