Frábær stemning á Íslandsmóti barna og unglinga

19.07.2024

Íslandsmót barna og unglinga hefur farið vel af stað. Aðstæður á Varmárbökkum, félagssvæði Harðar í Mosfellsbæ eru eins og best verður á kosið. Þegar hafa margar glæsilegar sýningar átt sér stað. Forkeppni í fjórgangi í Barnaflokki og Unglingaflokki er lokið sem og forkeppni í Fimmgangi í Unglingaflokki.

Í gærkvöldi fóru svo fram keppni í gæðingarlist og voru þar fyrstu Íslandsmeistararnir krýndir. Í barnaflokki voru það þau Viktoria Huld Hannesdóttir Þinur frá Enni sem stóðu uppi sem sigurvegar með 6,23 í einkunn. Í unglingaflokk voru það þau Elísabet Líf Sigvaldadóttir og Fenrir frá Kvistum sem sigruðu með 7,13 í einkunn. 

Nú stendur yfir forkeppni í Tölti, í frahaldinu tekur svo við gæðingaskeið í unglingaflokki en deginum lýkur síðan á forkeppni í Gæðingatölti en sú keppni hefst kl 18:45.
 
Mótinu er streymt í beinni á Eiðfaxa sem og í sjónvarpi Símans en ekki láta það stoppa ykkur í að kíkja í brekkuna og sýna þessum flottu ungu knöpum stuðning ykkar!