Frestur til að senda inn breytingartillögur fyrir landsþing er til 1. sept

28.08.2024

Hafa skal í huga að að reglur LH um íþróttakeppni (Í) og Almennar reglur um keppni (A) byggja á alþjóðareglum FEIF, sem LH er aðili að. Allar breytingartillögur á reglum LH um íþróttakeppni og Almennum reglum um keppni skulu skoðaðar sem ályktunartillögur til landsþings. Þær ályktunartillögur sem samþykktar eru á landsþingi, skulu bornar upp af fulltrúum LH á næsta reglulega ársþingi FEIF.

Aðrar breytingartillögur er varða lög og reglur LH eru teknar til atkvæðagreiðslu á þinginu og taka gildi að því loknu séu þær samþykktar. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabreytingu sé að ræða; þá þarf 2/3 hluta atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa.

Það er mjög mikilvægt að tillagan sé skýr, faglega framsett og vel rökstudd.

Allar breytingartillögur á keppnisreglum skulu berast keppnisnefnd LH og laganefnd LH eigi síðar en 1. september á landsþingsári. Tillögurnar skulu sendar skrifstofu LH lhhestar@lhhestar.is sem aftur kemur þeim á viðkomandi nefndir og bókar móttökudag þeirra. Keppnisnefnd og laganefnd skulu fara yfir tillögurnar, kosti þeirra og galla og veita umsögn sína um þær, séu þær þingtækar. Skal sú umsögn fylgja tillögunum inn á landsþing. Við meðferð tillagnanna afla nefndirnar sér þeirra upplýsinga sem þarf, kalla til aðila og veita síðan vandaða umsögn um tillöguna.