Fréttatilkynning frá MAST

09.08.2011
Á síðasta ári kom upp alvarlegur faraldur smitandi hósta í íslenska hrossastofninum af völdum bakteríusýkingu sem ekki er álitinn mikill skaðvaldur erlendis. Á síðasta ári kom upp alvarlegur faraldur smitandi hósta í íslenska hrossastofninum af völdum bakteríusýkingu sem ekki er álitinn mikill skaðvaldur erlendis.
Sá atburður sýndi glögglega hversu viðkvæmur íslenski hrossastofninn er fyrir smitsjúkdómum. Þrátt fyrir þetta áfall er íslenski hrossastofninn enn laus við alvarlegustu smitsjúkdómana og mikilvægt er að viðhalda þeirri góðu stöðu með öflugum smitvörnum.

Samkvæmt gildandi lögum og reglum er óheimilt að flytja inn notaðan reiðfatnað til landsins nema að undangenginni hreinsun og sótthreinsun samkvæmt reglum Matvælastofnunar. Til að auðvelda hestamönnum að uppfylla þessar reglur hefur Landssamband hestamannafélaga fyrir hönd félagasamtaka hestamennskunnar, nú samið við Fatahreinsunina Fönn um að taka við notuðum reiðfatnaði í rauða hliðinu á Keflavíkurflugvelli og skila fullhreinsuðum til eiganda fáum dögum síðar. Matvælastofnun hefur unnið starfsreglur fyrir fatahreinsunina í samstarfi við tollgæsluna:

Óhreinum reiðfatnaði skal framvísa í „rauða hliðinu“ í tollinum í lokuðum plastpokum. (Með reiðfatnaði er átt við reiðbuxur hverskonar, reiðjakka, –úlpur, -skó, –stígvél og -hjálma en þessa þjónustu má einnig nýta fyrir annan fatnað og skófatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis . Ekki er þó tekið við leður- og vaxjökkum.) Viðkomandi hestamenn skulu gera vart við sig í „rauða hliðinu“ í flugstöðinni og framvísa fatnaðinum þar til tollvarða. Tollverðir sjá til þess að fatnaðurinn, ásamt upplýsingum um eiganda, fari í sérstaka kassa sem þeir hafa í sinni vörslu þar til þeir eru sóttir af fatahreinsuninni. Að lokinni hreinsun verður fatnaðurinn sendur í póstkröfu til eiganda.

Komi farþegar með óhreinan reiðfatnað í græna hliðið við tollgæslu á Keflavíkurflugvelli eða verði vísir að því að vera með óhreinan reiðfatnað við tollskoðun í græna hliðinu, verður litið á slíkt sem smygl. Varningurinn er þá gerður upptækur og viðkomandi kærður. Sama á við um sendingar sem innihalda óhreinan reiðfatnað og koma til landsins með pósti, skipa- eða flugfrakt.

Ráðstöfun þessi tekur ekki til notaðra reiðtygja, reiðhanska eða annars búnaðar sem notaður hefur verið í hestamennsku enda er innflutningur á slíkum varningi óheimill.

Hér er um að ræða úrræði fyrir þá hestamenn sem ekki eru í aðstöðu til að þrífa og sótthreinsa notaðan reiðfatnað áður en komið er til landsins.


Íslenska landsliðið í hestaíþróttum verður fyrst til að nýta sér þessa þjónustu við komuna til landsins að loknu Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem var haldið 1. til 7. ágúst í St. Radegund í Austurríki.

Matvælastofnun Selfossi, 8. ágúst 2011

Hér eru leiðbeiningar um innflutning á notuðum reiðfatnaði/reiðtygjum