Fréttir af Uppskeruhátíð Léttis

23.11.2010
Þá er góðri Uppskeruhátíð Léttis lokið en hún var haldin í Sjallanum síðastliðinn laugardag. Margir mættu á hátíðina sem var hin besta skemmtun. Þá er góðri Uppskeruhátíð Léttis lokið en hún var haldin í Sjallanum síðastliðinn laugardag. Margir mættu á hátíðina sem var hin besta skemmtun. Gísli Einarsson veislustjóri fór á kostum og voru skemmtiatriðin mjög góð en öll voru þau „heimatilbúin“.
Veitt voru þrjú silfurmerki félagsins en þau fóru til Reynis Hjartarsonar, Garðars Lárussonar og Gunnars Malmquist.

Reynir Hjartarson. Hálf öld er síðan Alfreð Arnljótsson bað Reyni Hjartarson að hleypa hesti fyrir sig á kappreiðum Léttis sem hann  þáði og gerði með sóma.
Fáir vita þetta enda löngu um liðið, en hitt er ekki síður eftirtektarvert, að þessi sami Reynir hafði nú í ár komið fram með hest í sýningu öll árin fimmtíu.
Fyrst kappreiðar og þó aðallega stökk, síðan skeið og eftir að aldur og þroski fóru um hann höndum sýndi hann m.a. gæðing sinn Sám í hæðstu einkunn í A flokki gæðinga á Landsmóti hestamanna.
Reynir er ekki aðeins skáld, lífskúnstner og gleðigjafi, heldur líka hesta og íþróttamaður af Guðs náð og afrek hans ekki aðeins tengd hestinum og Hestamannafélaginu Létti heldur einnig afreksmaður í frjálsum íþróttum.
Sem dyggan félaga og keppnismann, hefur stjórn Léttis ákveðið að veita honum viðurkenningu fyrir glæsilegan keppnisferil ásamt silfurmerki Léttis.

Garðar Lárusson er hestamönnum að góðu kunnur fyrir félagsstörf sín. Hann hefur verið mörg ár í stjórn Léttis þar af formaður í eitt ár. Margar fundargerðirnar hefur hann ritað og marga reikningana hefur hann lagt fram. Hann hefur verið ómissandi sem tölvugúru félagsins um margra ára skeið, við íþróttamót, ísmót, gæðingakeppnir og önnur þau mót sem haldin hafa verið á vegum Léttis og er enn að. Garðar hefur starfað mikið í kringum Melgerðismela og alls staðar þar sem hann hefur komið við sögu  hefur hann látið gott af sér leiða, viðræðugóður og sanngjarn. Sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf fyrir Hestamannafélagið Létti, hefur stjórn félagsins ákveðið að sæma Garðar silfurmerki Léttis.

Gunnar Malmquist er einn þeirra félagsmanna sem lætur lítið fara fyrir sér. Situr gjarnan álengdar og hlustar en ef honum ofbýður þá lætur hann í sér heyra. Í mörg ár hefur Gunni verið boðinn og búinn að mæta með vörubílinn sinn og lyfta og færa til hluti og hús fram og til baka. Gunni hefur stundað hestamennsku lengi og á sínum yngri árum átti hann gæðinga sem stóðu í fremstu röð og tóku þátt í stórmótum fyrir hönd félagsins. Þar stendur fremstur meðal jafningja gæðingurinn Þristur, jarpstjörnóttur stólpagæðingur, harðviljugur yfirferðarhestur sem var þó ekki allra. Þegar Gunni var kominn á Þrist voru honum allir vegir færir og ekki fyrir neina aumingja að halda í við þá félaga. Sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf fyrir Hestamannafélagið Létti, hefur stjórn félagsins ákveðið að sæma Gunnar silfurmerki Léttis.

Einnig voru veitt verðlaun en sú ákvörðun var tekin að afhenda farandgripina fyrir gæðingakeppnina á uppskeruhátíðinni en ekki á gæðingakeppninni. 

Gæðingaknapar Léttis 2010.
Gæðingaknapar Léttis eru valdir eftir árangri í úrslitum.
Hryssubikarinn fer til þeirrar hryssu er hæstu einkunn hlaut í forkeppni.

Unglingaflokkur
Fanndís Viðarsdóttir / Brynhildur frá Möðruvöllum 8,33

Ungmennaflokkur
Jón Herkovic / Nastri frá Sandhólaferju 8.17

B-flokkur gæðinga
Þruma frá Akureyri / Helga Árnadóttir 8,57

A-flokkur gæðinga
Eyvör frá Langhúsum / Birgir Árnason 8,50

Hryssubikarinn
Þruma frá Akureyri / Helga Árnadóttir 8,46

Tilnefnd til efnilegasta knapans voru:
Jón Herkovic, Stefanía Árdís Árnadóttir, Skarphéðinn Ragnarsson, Þórarinn Ragnarsson, Örvar Áskellsson, Pernille Lyager Møller
Og var það Jón Herkovic sem hlaut titilinn efnilegasti knapi Léttis annað árið í röð.

Og tilnefndir til knapa ársins voru:
Baldvin Ari Guðlaugsson, Þorbjörn Hreinn Matthíasson, Guðmundur Tryggvason, Birgir Árnason, Viðar Bragason
Það var Baldvin Ari Guðlaugsson sem var valinn knapi ársins.

Óskum við þeim öllum til hamingju með góðan árangur á árinu.

Þökkum við skemmtinefndinni fyrir frábært starf og ykkur sem mættuð á svæðið.
Stjórn Léttis.