Fyrsta úttekt mannvirkjanefndar á Vindheimamelum

16.06.2009
Fyrsta úttekt mannvirkjanefndar á Vindheimamelum vegna Landsmóts 2010 fór fram í apríl síðastliðnum. Fyrsta úttekt mannvirkjanefndar á Vindheimamelum vegna Landsmóts 2010 fór fram í apríl síðastliðnum. Allt svæðið var skoðað og ræddar voru ýmsar hugmyndir varðandi skipulag svæðisins fyrir Landsmót 2010. Farið var yfir staðsetningu dómara, staðsetningu áhorfenda, aðstöðu hrossa og annað er viðkemur Landsmóti. Í meginatriðum er miðað við að Landsmótið 2010 verði svipað í sniðum og Landsmótið sem haldið var á Vindheimamelum árið 2006.

Birgir Leó Ólafsson er formaður mannvirkjanefndar Landssambands hestamannafélaga og sagði hann að svæðið liti mjög vel út og það væri mikill hugur í heimamönnum að halda mjög gott Landsmót.

"Það eru ekki fyrirliggjandi neinar stórar breytingar á mótssvæðinu. Keppnisvellirnir verða eins og síðast nema hringvöllurinn verður betur afmarkaður og beina brautin verður tekin frá og aðskilin með nýrri girðingu, líkt og keppnisvöllurinn var á LM2008 á Gaddstaðaflötum. Einnig hefur verið umræða um að gera keppnisvallargirðingar lægri og fjarlægðar að einhverju leyti, sérstaklega úr innri hringnum.  Er það gert til að auka sýn áhorfenda á keppendur og sýningarnar verða myndvænni. Áhorfendabrekkan verður stækkuð til vesturs og framkvæmdir við það fara á fullt strax eftir Verslunarmannahelgi, þá verður svæðinu lokað og það tekið í gegn.
Helstu framkvæmdir sem verða gerðar fyrir LM2010 eru þær að lögð verður vatnsveita inn á svæðið og þar með styrkist vatnsveitan mikið og rekstraöryggi eykst til muna."

Það er ljóst að undirbúningur fyrir LM2010 er farin af stað, vandað verður til verka og stefnt er að halda glæsilegt Landsmót á Vindheimamelum 2010.