Fyrsti dagur landsmóts

02.07.2024

Þá er fyrsti dagur landsmóts 2024 að kvöldi kominn. Dagurinn byrjaði snemma en fyrstu hross voru komin í braut klukkan 8:00. Dagurinn byrjaði strax af krafti bæði á kynbótabrautinni en ekki síst í barnaflokki þar sem hver glæsi sýningin rak aðra í sérstakri forkeppni. Áhorfendur létu ekki morgungjóluna í Víðidalnum trufla sig og sátu í brekkunni og hvöttu yngstu keppendurna til dáða. Keppendurnir voru allir íþróttinni til mikils sóma og ljóst að fyrir marga var langþráður draumur að rætast.

Efst eftir forkeppnina voru þau Elimar Elvarsson og Salka frá Hólateigi með 8,98 í einkunn og rétt á eftir þeim þau Viktoría Hulda Hannesdóttir á Þin frá Enni með 8,97 í einkunn. Heldur betur glæsilegur árangur hjá þeim.

Næst tók við sérstök forkeppni í B flokki gæðinga og eins og við var að búast var lítið sem skildi að efstu hesta en á toppnum eftir daginn trónir Jakob Svavar og Kór frá Skálakoti með 8,89 í einkunn.

Í sérstakri forkeppni ungmenna var einnig mjótt á munum milli fyrsta og annars sætis. En það eru þeir Matthías Sigurðsson og Tumi frá Jarðbrú sem leið með einkunnina 8,91 en Védís Hulda Sigurðardóttir og Ísak frá Þjóðólfshaga eru rétt á eftir þeim með 8,90.

Deginum lauk svo á keppni í Gæðingaskeiði og þar fór fyrsti bikar mótsins á loft þegar Hinrik Bragason og Trú frá Árbakka sigruðu með 8,75 í einkunn. Gæðingaskeið er aukagrein á landsmóti en það er greinilegt áhorfendur taka vel í það og þrátt fyrir að vel væri á liðið á fyrsta dag landsmóts var margt um manninn í brekkunni og stemmning góð. Klárlega spennandi landsmót framundan! Á instagram reikningnum @lhhestar birtast svipmyndir af mótinu við hvetjum alla til að fylgja okkur þar.