Gæðingakeppnin á að vera djörf

02.02.2009
„Við hjá LH erum alltaf tilbúin til ræða málin,“ segir Sigurður Ævarsson, formaður keppnisnefndar og stjórnarmaður í LH. „Við höfum verið að kynna gæðingakeppnina erlendis undanfarin ár. Viðtökurnar eru ekki eins eindregnar og við bjuggumst við.“ „Við hjá LH erum alltaf tilbúin til ræða málin,“ segir Sigurður Ævarsson, formaður keppnisnefndar og stjórnarmaður í LH. „Við höfum verið að kynna gæðingakeppnina erlendis undanfarin ár. Viðtökurnar eru ekki eins eindregnar og við bjuggumst við.“ Sigurður er gæðinga- og íþróttadómari og dæmir fjölda móta á hverju ári, bæði hér heima og erlendis.

„Áhuginn fyrir gæðingakeppninni er misjafn á milli landa. Hann er mestur í Skandinavíu og þar tel ég að við ættum að leggja mestu áhersluna að sinni. Það eru mjög fáir löglegir gæðingavellir til í FEIF löndunum utan Íslands. Það setur markaðssetningunni vissar skorður,“ segir Sigurður.

En hvernig tekur þú þeirri áskorun sem fram hefur komið um að halda málþing um gæðingakeppnina, stöðu hennar og markaðssetningu á henni í útlöndum?

„Við hjá LH erum alltaf tilbúin til að ræða málin. Það er rétt að rifja það upp að síðastliðið haust stóð Gæðingadómarafélag LH fyrir málþingi um gæðingakeppnina í félagsheimili Harðar í Mosfellsbæ. Hún var haldin föstudaginn fyrir uppskeruhátíð hestamanna, vegna þess að við vildum gefa sem flestum kost á að taka þátt. Aldrei fleiri hestamenn saman komnir á höfuðborgarsvæðinu. Málþingið var auglýst á vefmiðlum hestamanna en aðeins 20 til 30 manns sóttu það. Þetta var hins vegar mjög góður fundur og góð umræða sem þar fór fram. Þar var meðal annars rætt um áherslur í gæðingadómum.“

Hvað með þá gagnrýni að hestar í gæðingakeppni séu margir spenntir og á framhlutanum. Ertu sammála því?

„Ég er ekki sammála því að það sé einkenni á keppninni. Margir góðir hestar ná árangri bæði í íþróttakeppni og gæðingakeppni, svo sem Aris frá Akureyri, sigurvegari í A flokki á LM2008 og Reykjavíkurmeistari í fimmgangi 2008. Það er jafnhátt vægi á öllum gangtegundum í B flokki gæðinga. Í A flokki hafa tölt og skeið tvöfalt vægi. Vilji og fegurð í reið hafa tvöfalt vægi í báðum flokkum. Það er síðan einfaldlega þannig að sumir hestar njóta sín hvergi betur en í gæðingakeppni; fyrir fas og gangrými.“

Tvöfalt vægi á huglægu þáttunum, vilja og fegurð í reið! Er ekki hætta á að knapar teygi sig út á ystu mörk til að sækja þessar einkunnir — með því að ýkja vilja og fótaburð með reiðmennskunni. Umfram það sem hestinum er eiginlegt og á kostnað gangtegundanna og réttrar stillingar á höfuðburði?

Þarna reynir á dómarana og þetta eru þau atriði sem við erum einmitt með í sífelldri naflaskoðun. Gæðingakeppnin á að vera djörf og ákveðin. En hún má þó ekki verða klúr. Sigurður Haraldsson heitinn í Kirkjubæ skrifaði á sínum tíma leiðara fyrir gæðingakeppnina. Þau skrif eru ennþá í fullu gildi og nánast ekkert verið hróflað við þeim. Í leiðara fyrir gæðingadómara segir meðal annars:

Um vilja: Mest sé metið það fjör, sem án verulegrar viðkvæmni lætur allt í té af ljúfu geði og örlæti.

Um takt og samræmi: Lyfting og snerpa sem eykur fjaðurmagn, framtak og mýkt, gefur hærri einkunn. Telji dómari að hestur sé hins vegar: ofreistur, ósamræmi í hreyfingum og fjaðurmagn lítið, hesturinn allur stífur og vélrænn, dregur það niður einkunn.

Um framtak og gangrými: Ýkta fótlyftu sem jafnvel dregur úr framtaki og þrengir gagnrýni, ber að meta til lækkunar á einkunn.

Um fas og hreyfngafegurð: Hreyfingar reiðhests eiga að vera léttar, fjaðurmagnaðar, háar, svifmiklar, hreinar, sniðfastar og frjálsar.

Þetta segir í rauninni flest sem segja þarf,“ segir Sigurður Ævarsson.