Gagnorðar umræður á Blönduósi

09.02.2009
Á þriðja tug hestamanna sátu almennan fund LH sem haldinn var á Blönduósi síðastliðinn föstudag. Umræður voru gagnorðar og gagnlegar. Flestir voru sammála um að skerpa þurfi á ímynd hestamennskunnar sem íþróttagreinar.   Á þriðja tug hestamanna sátu almennan fund LH sem haldinn var á Blönduósi síðastliðinn föstudag. Umræður voru gagnorðar og gagnlegar. Flestir voru sammála um að skerpa þurfi á ímynd hestamennskunnar sem íþróttagreinar.   Guðmundur Sveinsson vakti máls á því að það virtist vera tregða í stjórnum sveitarfélaga þegar kæmi að hestaíþróttinni. Ráðnir íþróttafulltrúar virtust ekki meðvitaðir um að hestamennskan væri íþróttagrein innan ÍSÍ, og jafnframt sú þriðja fjölmennasta. Vera hestamanna í ÍSÍ væri meira í orði en á borði. Þessu þyrfti að breyta. Þá tóku fundarmenn almennt undir þá skoðun að reiðhallir ættu að njóta sömu stöðu og önnur íþróttamannvirki. Það væri almennt ekki þannig, þótt lög kveði á um að sveitarfélög sjái um uppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja.

 

 

 

Voru menn almennt sammála um að leggja þyrfti meiri áherslu á að koma hestaíþróttinni enn frekar á blað í fjölmiðlum, bæði sjónvarpi og dagblöðum. Það þyrfti þó að skoða betur með hvað hætti það efni væri framreitt. Beinar útsendingar af úrslitum stórmóta hefðu ekki alltaf reynst vera spennandi sjónvarpsefni.

 

Sigfús Helgason, stjórnarmaður í LH, sagði að hestamenn þyrftu líka að líta í eign barm. Þeir höguðu oft seglum eftir vindi, væru íþróttamenn einn daginn og bændur hinn daginn. Landssambandið og hestamannafélögin þyrftu að skilgreina sig sem íþróttahreyfingu. Það væri forgangsatriði að íþróttabandalögin á hverju svæði hefðu forgöngu um byggingu reiðhalla á hverjum stað. Það væri lykilatriði í því að tryggja stöðu þeirra sem íþróttamannvirkja.

 

 

 

Haraldur Þórarinsson, formaður LH, tók undir þessi orð Sigfúsar og sagði að skerpa þyrfti skilin á milli hestaíþróttarinnar og landbúnaðar. Hann lagði áherslu á að stjórn LH ætti að ryðja brautina í þeim málum eins og öðrum. Okkar hlutverk er að þjónustu hestamannafélögin, sagði Haraldur.

Töluverðar umræður urðu um Landsmót 2008 og kom meðal annars fram gagnrýni á aðstæður á Gaddstaðaflötum. Til dæms hefði aðgengi keppenda með hross að og frá mótsstað verið erfitt síðustu þrjá dagana og það hefði tekið margar klukkustundir fyrir gesti að komast út af mótssvæðinu eftir að mótinu lauk.

 

Guðmundur Sveinsson, formaður Léttfeta á Sauðárkróki, sagði að ræktunarbússýningar og sýningar kynbótahrossa eftir dóma hafi verið eyðilagaðar með því að nota beinu brautina. Hann sagði að stjórn LH hlyti að þurfa að endurmeta hvort svæðið á Gaddstaðaflötum uppfyllti í raun öll skilyrði hvað varðar nútíma stórmótahald miðað við reynsluna af síðast móti.

 

 

Spurt var hvort LH hefði staðið fyrir könnun í tengslum við Landsmótið um viðhorf keppenda og áhorfenda til mótshaldsins. Það væri í raun eina leiðin til að meta hverning til tókst. Í svari frá LH kom fram að LH hefði ekki staðið fyrir formlegri könnun. Hins vegar væri Hjörný Snorradóttir að vinna slíka könnun á eigin spýtur. Ennfremur hefði verið haldið vel sótt málþing í Reykjavík þar sem ýmis sjónarmið hefðu komið fram.

 

Gunnar Sturluson kynnti undirbúning Fjórðungsmóts á Kaldármelum í sumar. Hann sagði að breytingar yrðu gerðar á skipulagi valla, en aðstaða fyrir veitingar, salerni og aðra innanhúss starfssemi yrði leigð í formi tjalda og annarra flytjanlegra bygginga. Lögð yrði áhersla á að bjóða upp á keppnisgreinar sem drægju að keppendur og áhorfendur.

 

Myndin er af nokkrum lykilmönnum í Skagafirði, sem mættu á fundinn. Má þar meðal annarra sjá Guðmund Sveinsson og Eymund Þórarinsson.