Gleðin heldur áfram á Landsmóti

04.07.2024

Bjartur og fallegur dagur að kvöldi kominn í Víðidalnum. Fjórði dagur landsmóts og frábær stemningin í brekkunni.

Dagurinn hófst á milliriðli í ungmennaflokki, þar voru það Eik Elvarsdóttir og Blær frá Prestsbakka sem náðu bestum árangri og eru efst eftir milliriðla með 8,75 í einkunn. Þau bættu sig töluvert en þau fóru með 8,62 inn í milliriðla. 

Síðan hófst milliriðill í B flokk gæðinga. Þar voru það þeir Þröstur frá Kolsholti 2 og Helgi Þór Guðjónsson sem enduðu efstir með 8,86 sem er sama einkunn og þeir komu með inn í riðilinn. Kór frá Skálakoti og Jakob Svarar Sigurðsson sem leiddu inn í milliriðil lækkuðu sig úr 8,89 í 8,68 og fara í B-úrslit.

Þá var komið að milliriðli í A flokki gæðinga. Leynir frá Garðshorni á Þelamörk og Eyrún Ýr Pálsdóttir áttu góða sýningu og standa efst með 8,94 og rétt á eftir þeim eru Álfamær frá Prestsbæ og Árni Björn sem voru efst eftir sérstaka forkeppni en fóru úr 9,07 í 8,91.

Þá var komið að setningarathöfninni sem var einkar hátíðleg þar sem sólin braust út úr skýjunum og fulltrúar allra hestamannafélaga landsins fylltu völlinn á fallegu hestunum sínum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra leiddi reiðina en hún stundar hestamennsku í Fáki og hefur gert frá blautubarnsbeini. Mótið setti Hjörtur Bergstað formaður Fáks og fór fögrum orðum um hið góða samtarfs sem Fákur og Sprettur hafa átt við framkvæmd mótsins. Hann minnti líka á það mikilvæga hlutverk sem sjálfboðaliðar gegna á móti sem þessu en án þeirra væri illmögulegt að halda stórmót af þessu tagi. Þá tóku þau Áslaug Arna, Ásmundur Einar Daðason ráðherra og Einar Þorsteinsson borgarstjóri til máls, fóröll fögrum orðum um hestamennskuna og því mikilvæga menningarlega og félagslegahlutverki sem hún gengir í Íslensku samfélagi. 

Frábærum degi lauk svo á keppni í Tölti T1 þar sem hver glæsisýningin rak aðra fyrir fram spennta áhorfendur sem nutu sín í kvöldsólinni. Efstur eftir forkeppni er Árni Björn Pálsson á Kastaníu frá Kvistum með 8,77. Þar á eftir koma Jakob Svavar Sigurðsson og Skarpur frá Kýrholti með 8,50 og Teitur Árnason og Fjalar frá Vakurstöðum í þriðja sæti með 8,47.