Góður dagur að Fjallabaki í Þolreið LH - Survive Iceland

27.08.2022
Emelie Sellberg á Karel frá Stóru-Heiði og Karri Bruscotter á Röskvu frá Lynghóli Mynd: Gígja Einarsdóttir

Á þriðja degi Þolreiðar LH - Survive Iceland var lagt upp frá Landmannahelli og riðið inn í Landmannalaugar í fyrri áfanga dagsins. Seinni áfanga dagsins  var riðið frá Landmannalaugum, meðfram Hnausum, hjá Eskihlíðarvatni og til Landmannahellis. Dagurinn var sólríkur og hlýr og voru knapar duglegir að gefa keppnishestunum sölt og steinefni til að bæta þeim upp vökvatap.

Púlsmælar hafa reynst afar gagnlegir til að fylgjast með ástandi hestanna og ríða allir knapar með slíkan búnað.

Lið Íslandshesta varð fyrir því óhappi í gær að tveir af hestum þeirra slösuðust út í haga og hefur liðið því lokið keppni.

Eftir þriggja daga reið er staðan þannig að lið Líflands leiðir með tímann 11 klst. og 59 mín. Í öðru sæti er lið H. Hestaferða með tímann 12 klst. 11 mín. og fast þar á eftir kemur lið Eldhesta með tímann 12 klst. og 25 mín. Í fjórða sæti er lið Tamangur/Hestalands, 14 klst. og 19 mín og í fimmta sæti er lið Stálnausts, 15 klst. og 9 mín.             

Á morgun er lokadagur keppninnar og ljóst að allt getur gerst þar sem keppnin er hnífjöfn.