Hæfileikamótun heimsótti Hóla

22.10.2024

Um liðna helgi fóru helmingur þátttakenda í Hæfileikamótun að Hólum, hinn hluti hópsins mun einnig fara norður, en vegna fjölda þátttakenda þarf að hafa hópinn tvískipta . Ferðin markar upphaf vetrarstarfsins og nýtist vel til að hrista hópinn saman. Sigvaldi Lárus Guðmundsson er yfirþjálfari Hæfileikamótunar.

Á Hólum var að vanda vel tekið á móti krökkunum og hófst formleg dagskrá á laugardagsmorgni en þá tók Atli Guðmundsson á móti hópnum en hann ásamt Caro Böse og Sigvalda sáu um kennsluna.

Alls fengur þátttakendur fjóra reiðtíma, tvo með Atla þar sem farið var yfir mörg grunnatriði í reiðmennsku. Caro Böse tók fyrir sætisæfingar þar sem áhersla var lögð á ásetu og jafnvægi og Sigvaldi var með kennslu í skeiði þar sem hver þátttakandi fékk að prufa tvo mismunandi skeiðhesta. Þar var líka farið í hvernig á að undirbúa hest fyrir skeið og hvað þarf að vera til staðar í upphafi og enda skeiðspretts.

Kennslunni lauk svo með sýnikennslu frá Atla þar sem hann mætti með ungan keppnishest frá sér og sagði frá því hvað hann er að gera með honum í þjálfun.

Þá fengu þátttakendur einnig rúman tíma til að leika sér í körfubolta og fótbolta auk þess sem tekist var á í spurningakeppni að reiðkennslu lokinni.

Á sunnudag var stoppað á Nautabúi í Hjaltadal hjá Þórarni Eymundssyni og konu hans Sigríði Gunnarsdóttur á Nautabúi þar sem boðið var upp á frábæra sýnikennslu um upphaf vetrar þjálfunar á ungri hryssu í eigu dætra þeirra ásamt því að rölta um hesthúsið þar sem sagt var frá þeim og dagsdaglega lífinu á bænum.