Hæfileikamótun LH

18.10.2022
Hæfileikamótun LH 2021-2022 á Hólum í nóvember 2021

Opið er fyrir umsóknir í Hæfileikamótun veturinn 2022-2023.  Hæfileikamótun er fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára og á síðasta ári voru 29 knapar valdir af yfirþjálfara Hæfileikamótunar Sigvalda Lárusi Guðmundssyni.

Síðast liðinn vetur var viðburðarríkur og hófst árið með heimsókn til Háskólans á Hólum þar sem gist var í tvær nætur. Á Hólum fengu þau aðgang að aðstöðu, kennurum og hestum skólans. Þorsteinn Björnsson kennari skólans, yfirþjálfari og Carö Böse sáu um almenna reiðkennslu. Þar var farið í marga af grunnþáttum reiðmennskunnar m.a. ásetu og stjórnun, fimiæfingar, ásetuæfingar og þjálfun á gangtegundum. Rúsínan í pylsuendanum var að fá að kynnast skeiðhestum skólans og fengu allir krakkarnir að leggja á skeið. Mikið var lagt upp úr að kenna þeim tæknina við að taka niður á skeið og hvernig á að enda skeiðsprett. Ásamt þessu fengu þau tvær sýnikennslur, frá yfirreiðkennara skólans Mette Mannseth sem mætti með höfðingjann Hnokka frá Þúfum og frá Íslandsmeisturum í gæðingaskeiði, Konráð Val Sveinsson og Tangó frá Litla-Garði.

Ásamt þessu voru fengu allir tvær kennsluhelgar eftir áramót þar sem hópnum var skipt í tvennt og kennt í einkatímum. Fengu þau aðstoð við þjálfun á sínum keppnishestum þar sem lögð var áhersla á hestvænar aðferðir ásamt því að auka skilning fyrir hestinum. Síðan var einn dagur um vorið kennt úti á hringvelli þar sem var aðstoðað við þjálfun á velli ásamt því að stilla upp fyrir keppni. Kennarar voru Helga Una Björnsdóttir, Þorsteinn Björnsson og Hanna Rún Ingibergsdóttir.

Haldnir voru tveir fyrirlestrar fyrir hópinn. Næringarfræðingurinn Geir Gunnar Markússon talaði um mikilvægi góðs mataræðis ásamt hreyfingu. Það er ekki nóg að hesturinn okkar sé í líkamlega góðu jafnvægi heldur þurfa knapar og þjálfarar líka að vera það. Seinni fyrirlesturinn var síðan með Margréti Láru Viðarsdóttur sálfræðingi og fyrrverandi landsliðskonu í knattspyrnu og Einari Erni sjúkraþjálfara. Þar var komið inn á marga merkilega þætti varðandi íþróttir sem getur nýst knöpum vel. T.d. var komið inná andlegt álag, ofþjálfun og margt fleira. 

Einnig tóku kanapr í hæfileikamótun þátt í Allra Sterkustu. Sátu þau fyrirlestra þar sem fjallað var um landsliðið og allt sem að því kemur hvort sem það væri A-landsliðið eða U-21 árs landsliðið. Sigurbjörn Bárðarson landsliðseinvaldur, Hekla Katharína Kristinsdóttir U-21 árs þjálfari spjölluðu við þau ásamt Benjamín Sand Ingolfssyni landsliðsknapa og lísti þar upplifun sinni að vera í landsliði og að fara á stórmót og allt sem því fylgdi. Síðan aðstoðu krakkarnir við keppnina og sýninguna sem fór fram um kvöldið. 

Lokahittingur var síðan haldinn í júní. Farið var í ferð um Suðurlandið og hófust leikar á Árbakka þar sem þau hittu landsliðsknapann og Íslandsmeistarann í fjórgangi, Jóhönnu Margréti Snorradóttur. Hún tók fram unga hryssu úr hennar eigin ræktun. Hún sýndi hvernig hún þjálfar hana á göngubretti og fór síðan út á hringvöll og fjallaði um þjálfun á hringvelli. Að lokum rölti hún með þeim um hesthúsið á Árbakka og sagði frá starfseminni og því sem þar fer fram. Næst lá leiðin í Rangárhöllina. Þar hittu þau Heklu Katharínu og U-21 árs landsliðsknapann Hákon Dan Kristinsson. Hekla fjallaði um landsliðið og verkefni þess og Hákon sagði frá ferli sínum með landsliðinu og hvað menn þurfa að hafa í huga þegar mætt er á stórmót erlendis. Dagurinn endaði í Kirkjubæ þar sem þau hittu landsliðsknapann Hönnu Rún Ingibergsdóttur og Hjörvar Ágústsson tamningamann. Hann sagði þeim frá sögu Kirkjubæjarbúsins ásamt því að Hanna Rún sýndi þeim þjálfun og undirbúning fyrir keppni á stóðhestinum Júní frá Brúnum.

Í hæfileikamótun eru ungir og efnilegir framtíðarknapar Íslands. Er mjög mikilvægt að hjálpa þeim að verða betri þjálfarar og reiðmenn en einnig að kynnast landsliðsumhverfinu og verða að flottum fyrirmyndum fyrir aðra.

Tekið er á móti umsóknum í hæfileikamótun LH 2020-2023 á vef LH.

Umsóknarfrestur er 25. október 2022

Umsóknum skal skilað á sérstöku eyðublaði á vefsíðu LH