Heimsmeistarar í gæðingaskeiði

08.08.2023
Elvar og Fjalladís frá Fornusöndum heimsmeistarar í gæðingaskeiði

 

Til hamingju hestamenn!

Í kvöld lönduðum við okkar fyrstu heimsmeistara titlum. Elvar Þormarsson og Fjalladís frá Fornusöndum sýndu hvað í þeim býr og áttu tvo yfirburða spretti í gæðingaskeiðinu þau hlutu einkunnina 8,92.

Þau hafa sýnt það áður að þau kunna þetta, enda ríkjandi Íslandsmeistarar í greininni. Í kvöld báru þau höfuð og herðar yfir aðra keppendur og sýndu svo sannarlega hvað í þeim býr í rigningunni hér Orischot.

Þau sem teygðu tærnar í hælana á þeim voru engin önnur en Benedikt Ólafsson og Leira-Björk frá Naustum III. Þau eru ríkjandi Íslandsmeistarar ungmenna síðastliðinna þriggja ára. Þau áttu tvo glæsilega spretti sem tryggðu þeim 8,0 í einkunn og heimsmeistaratitil ungmenna sem og annað sæti yfir alla keppendur kvöldsins óháð aldri. Þvílíkur árangur!

Benedikt Ólafasson og Leira-Björk frá Naustum lll Heimsmeistarar í gæðingaskeiði u21

Elvar og Fjalladís eru einnig skráð í 100m og 250m skeið og verður spennandi að fylgjast með þeim á brautinni. Benedikt og Leira-Björk ætla ekki heldur að sitja auðum höndum, en þau eru einnig skráð í fimmgang, slaktaumatölt og 100m skeið.

Benjamín Sandur Ingólfsson var ríkjandi heimsmeistarar ungmenna en er nú komin í fullorðinsflokk. Hann mætti með og Júní frá Brúnum. Þeir áttu góða spretti og enduðu í 20. sæti með 5,75 í einkunn. Þeir munu einnig keppa í fimmgang og tölti.  

Heimsmeistaramótið byrjar svo sannarlega vel!

Á morgun er annar stór dagur, en hann byrjar á forkeppni í fimmgangi þar sem við eigum 5 keppendur, Sara og Flóki, Glódís og Salka, Benedikt og Leira – Björk, Benjamín og Júní og Þorgeir og Goðasteinn.

Þar á eftir hefst yfirferð kynbótasýningar fyrir 5 og 6 vetra. Þar eigum við fjóra fulltrúa; Ársól og Aðalheiður, Höfði og Þorgeir, Hrönn og Jakob og Geisli og Árni.

Dagurinn mun svo enda á 1. og 2. Sprett í 250m skeiði. Þar munu keppa Hans Þór og Jarl, Elvar og Fjalladís, Daníel og Eining og Sigríður og Ylfa.