Hestar tamdir fyrr en áður var talið

05.03.2009
Hestar voru tamdir af manninum mun fyrr en áður var talið samkvæmt breskum fornleifafræðingum. Þeir hafa fundið merki þess að hross hafi verið notuð á menningarsvæði í Kazakhstan fyrir um 5.500 árum síðan. Hestar voru tamdir af manninum mun fyrr en áður var talið samkvæmt breskum fornleifafræðingum. Þeir hafa fundið merki þess að hross hafi verið notuð á menningarsvæði í Kazakhstan fyrir um 5.500 árum síðan.

Frétta af www.mbl.is

Hingað til hafa elstu ummerki þess að menn hafi notað hross sér til framdráttar verið málmhlutar úr aktygjum frá bronsöld. Rannsókn sérfræðiteymisins frá Exeter háskóla í Bretlandi bendir hinsvegar til að í Kazakhstan hafi hross verið tamin 1.000 árum fyrr. Þar hafi menn líka lagt sér hrossakjöt til munns og drukkið hrossamjólk, hugsanlega bruggaða sem áfengan mjöð.

Greiningar á beinunum sem fundust þar sýna að hrossin hafi verið svipuð í byggingu og það hrossakyn sem tamið var á bronsöld. Vísindamennirnir gerðu rannsókn á tönnum þeirra til að kanna hvort þar væru ummerki um mél og skoðuðu einnig matar- og drykkjarleyfar í leirmunum. Hrossamjólk er enn þann dag í dag drukkin í Kazakhstan.

Dr. Alan Outram sem leiddi rannsóknina segir að tamning hrossa sé mikilvæg vísbending um menningarstig. „Tamning hrossa hafði ýmislegt í för með sér fyrir mannkynið um allan heim,“ hefur BBC eftir Outram. „Hún gerði fólki auðveldara fyrir að stunda verslun og gaf þeim mikið forskot í hernaði. Ef við getum rakið tamningu hrossa mun aftar í mannkynssögun þá þurfum við að leiða hugann að áhrifunum sem það hafði á menninguna á þeim tíma.“

Sumir vísindamenn telja að tamning hrossa hafi spilað veigamikið hlutverk í útbreiðslu bronsaldarinnar um Evrasíu fyrir þúsundum ára. Þá eru leiddar líkur að því að notkun mannsins á hrossum hafi haft mikið að segja fyrir útbreiðslu indó-evrópskra tungumála, en í þeirri tungumálafjölskyldu eru m.a. enska, íslenska, hiní og persneska.