Hlaðið í vígalegt töltmót

23.03.2018
Ásmundur Ernir mætir með Frægan frá Strandarhöfði. Hér er hann á Speli frá Njarðvík á HM í Hollandi s.l. sumar.

Landsliðsnefnd LH er að hlaða í vígalegt töltmót um páskahelgina. Heimsmeisturum, Íslandsmeisturum og Landsmótssigurvegurum er boðin þátttaka og auk þess eru aðrir knapar með súpertöltara velkomnir að slást í leikinn.

Landsliðsknaparnir Viðar, Þórarinn og Jakob eru trúir málefninu, en mótið er aðalfjáröflun íslenska landsliðsins í hestaíþróttum.

Viðar Ingólfsson mætir með tölthryssuna knáu Maístjörnu frá Árbæjarhjáleigu II. Þetta er ung og efnileg hryssa í eigu Viðars, undan Óskari frá Blesastöðum 1A og Móu frá Skarði.
Þórarinn Eymundsson kemur að norðan með móálótta fyrstu verðlauna stóðhestinn Lauk frá Varmalæk, undan Hófi og Tilveru frá sama bæ. Laukur hefur hlotið 9,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir vilja og geðslag. Laukur hefur verið firnasterkur í töltkeppnum síðustu misserin og var m.a. í B-úrslitum á síðasta Íslandsmóti.

Jakob Svavar Sigurðsson heimsmeistari í tölti hefur staðfest komu sína en það er ennþá á huldu hvaða töltsnilling hann kemur með. Áhorfendur verða þó varla sviknir af þeim grip, þar sem Jakob virðist eiga nóg af yfirburðahrossum í hesthúsinu.

Á síðasta heimsmeistaramóti var hún Hulda okkar Gústafsdóttir í því hlutverki að styðja son sinn Gústaf Ásgeir Hinriksson til góðra verka. Hún rúllaði því upp af sinni alkunnu snilld og barnið varð heimsmeistari! Hún kemur á 8v gömlum Aronssyni, Draupni frá Brautarholti, þeim sama og við sáum hana á í gæðingafimi Meistaradeildar Cintamani um daginn.

Fleiri þátttakendur verða kynntir til leiks á næstu dögum, en þangað til, látið ykkur hlakka til!

Miðasalan er hafin í Líflandi Lynghálsi, hjá Baldvini og Þorvaldi á Selfossi og í Top Reiter Ögurhvarfi. Miðaverð er það sama og síðustu ár, 3.500 kr aðgöngumiðinn og 1.000 krónur happdrættismiðinn, en happdrættið verður sérlega glæsilegt að þessu sinni.

Húsið opnar kl. 17 og keppni hefst kl. 19. Umgjörðin verður glæsileg og peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. 

Sjáumst í Samskipahöllinni laugardagskvöldið 31. mars!