Hrossauppboð á laugardaginn

06.05.2011
Vals Álfssonur frá Efra-Seli.
Nú liggur fyrir hvaða hross verða í boði á uppboðsmarkaðnum í Votmúla á laugardaginn kemur. Nú liggur fyrir hvaða hross verða í boði á uppboðsmarkaðnum í Votmúla á laugardaginn kemur. Þar verða m.a. til sölu nokkrir tamdir hestar sem sýndir verða í reið, t.d. Eldur frá Strandarhjáleigu, góður hestur undan gæðingnum Kvisti frá Hvolsvelli, Spakur frá Óslandi, efnilegur keppnishestur undan Brunni frá Kjarnholtum og Kopar frá Reykjakoti, keppnishestur klár í fjórgang, undan Arnari frá Vatnsleysu.
Svo verða boðin upp unghross í fjölbreyttum litum, brún, rauð, jörp, móálótt, rauðblesótt, móvindótt og skjótt, en tryppin eru vel ættuð undan hestum eins og Hruna frá Breiðumörk, Vals frá Efra-Seli, Álmi frá Skjálg, Hnokka frá Þúfum, Ágústínus frá Melaleiti, Baugi frá Víðinesi, Degi frá Strandarhöfða og fleirum. Gott tækifæri til að gera góð kaup í spennandi tryppum! Einnig verða boðnir upp folatollar undir Vals frá Efra-Seli, efnilegan unghest undan Álfi frá Selfossi.
Hinn stórskemmtilegi Steindór Guðmundsson ofurdómari og stórbóndi á Hólum stýrir uppboðinu og þau Páll Bragi og Hugrún í Austurkoti verða sölustjórar og umboðsmenn fyrir Áslaugu Fjólu. Ef einhverjir vilja heyra í þeim og forvitnast aðeins um hrossakostinn fyrir uppboðið er síminn 897 7788 hjá Palla og 897 7755 hjá Hugrúnu.
Hrossin eru öll í eigu Áslaugar Fjólu Guðmundsdóttur í Efra-Seli, en maður hennar Þórir Níels Jónsson tamningamaður lést nýlega langt um aldur fram eftir stutta baráttu við krabbamein. Hluti af allri sölu á uppboðinu mun renna til Krabbameinsdeildar Landspítalans í hans nafni.
Hestamenn eru hvattir til að kíkja austur í Votmúla á laugardaginn, gera sér góðan bíltúr og eiga skemmtilegan dag þar sem án efa verður hægt að gera góð kaup í álitlegum hrossum og styðja gott málefni í leiðinni.  Uppboðið hefst kl. 16 og eru allir velkomnir! Votmúli er í Flóa, neðan við Selfoss, ekið frá Selfossi niður Eyrarbakkaveg, eða niður Gaulverjabæjarveg ef komið er austan frá að Selfossi, og beygt inn á Votmúlaveg nr. 310.