Hvað tefur nú stjórn LH?

17.05.2011
Nýtt hesthús í byggingu á Melgerðismelum. Mynd:Jónas Vigfússon.
Samkvæmt lögum og reglum LH skal ákvörðun um landsmótsstað liggja fyrir a.m.k. fimm árum fyrir það mót sem um ræðir. Samkvæmt lögum og reglum LH skal ákvörðun um landsmótsstað liggja fyrir a.m.k. fimm árum fyrir það mót sem um ræðir.

Það þýðir að ákvörðun um landsmótsstað 2014 hefði átt að liggja fyrir um mánaðamót júní/júlí 2009 og ákvörðun um landsmótsstað 2016 þarf að liggja fyrir áður en landsmótið 2011 hefst á Vindheimamelum. Ákvörðun um landsmótsstað 2014 tók stjórnin ekki á réttum tíma og útskýrði formaður það á seinasta landsþingi með því að ákveðið hafi verið að bíða með ákvörðunina þar til nefnd sem skipuð var til að marka stefnu um framtíð landsmóta hefði lokið störfum. Mikilvægt væri að ná sátt um þessa ákvörðun og virða þær reglur sem í gildi væru en því væri ábótavant.
Þar erum við Haraldur sammála, en mikil brotalöm er á því að farið sé eftir gildandi reglum. Úr því sem komið var gerði landsþingið ekki ágreining um að beðið væri með staðarvalið þar til svokölluð landsmótsnefnd skilaði af sér.
Landsmótsnefndin skilaði síðan af sér lokaskýrslu 18. mars s.l. og ef við skoðum hvað hún leggur til varðandi staðarval þá er hún ekki með tillögur um að landsmótsstaðir skulu aðeins vera tveir eða jafnvel einn, en leggur áherslu á að tekið sé af skarið um hvar næstu 3-4 landsmót skuli haldin. Nefndin telur þó að hægt sé að færa fyrir því rök að tvö landsmót skuli haldin sunnanlands á móti einu norðanlands.
Þessari hugmynd var mótmælt á nýlegum formannafundi Félags hrossabænda og lögð áhersla á að mótin séu haldin til skiptis á Norður- og Suðurlandi.
Þá ber að geta samþykktar frá Búnaðarþingi 2010 þess efnis að landsmót skuli einungis haldi á Gaddstaðaflötum og Vindheimamelum. Þeirri tillögu var fylgt eftir á aðalfundi Félags hrossabænda 2010 með tillögu Skagfirðinga sama efnis. Þeirri tillögu var vísað frá.
Nú styttist í að tveir mánuðir séu liðnir frá því landsmótsnefnd skilaði skýrslu sinni. Hvað tefur nú?

Stjórn LH getur ekki skorast lengur undan því að velja landsmótsstað fyrir landsmót 2014 og helst líka 2016!

Melgerðismelar hafa verið boðnir fram til landsmótshalds 2014 og raunar einnig fyrir landsmót 2006 og 2010. Þrátt fyrir að Melgerðismelar hafi ekki setið við sama borð varðandi framlög af opinberu fé eins og Vindheimamelar og Gaddstaðaflatir er enginn bilbugur á Eyfirðingum og nú er bygging nýs hesthúss á Melgerðismelum langt komin.

Eyjafirði í maí 2011
Jónas Vigfússon, Litla-Dal