Hver á landsmót hestamanna?

15.02.2010
Ásdís Helga Sigursteinsdóttir við tamningar á Melgerðismelum sumarið 2009
Nú að undanförnu hefur verið mikil umræða um val á landsmótsstað fyrir landsmót hestamanna. Eru þá fyrirferðarmestir forsvarsmenn þeirra mótssvæða, sem telja sig eiga landsmótin, þ.e.a.s. Gaddstaðaflata og Vindheimamela. Nú að undanförnu hefur verið mikil umræða um val á landsmótsstað fyrir landsmót hestamanna. Eru þá fyrirferðarmestir forsvarsmenn þeirra mótssvæða, sem telja sig eiga landsmótin, þ.e.a.s. Gaddstaðaflata og Vindheimamela. Undirskriftarlistar ganga um landið og skorað er á stjórn LH að falla frá áformum um að halda landsmót í Reykjavík árið 2012. Gefið er í skyn að stjórnin sé að brjóta samkomulag og látið í veðri vaka að sátt ríki í landinu um þá tvo landsmótsstaði sem hafa fengið öll mótin undanfarinn áratug. Þá er því haldið fram að um offjárfestingar sé að ræða ef landsmótsstaðirnir eru margir og helst eigi einungis að hafa einn landsmótsstað svo fjármunir hestamanna nýtist sem best og svæðið verði boðlegt.
Reynum að horfa hlutlægt á þetta og skoða hvað stjórn LH ber að gera.
Í lögum LH segir í gr. 1.1.2 m.a. um tilgang og markmið að það sé í verkahring LH að sinna hagsmunamálum sem tengjast hestaíþróttum svo sem á sviði ræktunarmála, tamninga, samgöngu- og ferðamála, landnýtinga- og umhverfismála. Önnur markmið eru m.a að vinna að eflingu hestamennsku m.a. með fræðslu, útbreiðslu- og kynningarstarfsemi. Í gr. 6.1 segir síðan: ...Stjórn LH velur og ákveður landsmótsstað hverju sinni að höfðu samráði við rekstraraðila. Skal ákvörðun um mótsstað liggja fyrir a.m.k. fimm árum fyrir það mót sem um ræðir… og jafnframt …Við staðarval skal stjórn hafa til hliðsjónar fjárhagslega hagkvæmni svo og yfirsýn á félagslegt réttlæti.
Nú er staðan sú að það eru fjögur mótssvæði á landinu sem hafa alla burði til að halda landsmót, þ.e.a.s. Vindheimamelar, Reykjavík, Melgerðismelar og Gaddstaðaflatir. Svæðin hafa öll sína kosti og galla, ekkert þeirra er eins og öll boðleg.
Á engum þessara svæða hefur verið um offjárfestingu að ræða, nema hugsanlega með byggingu  reiðhallar á Gaddstaðaflötum fyrir seinasta landsmót því ekki er hægt að segja að þörf hafi verið fyrir hana landsmótsins vegna þó hún nýtist ágætlega á landsmóti. Vonandi ná þó endar saman vegna þeirrar fjárfestingar.
Landsmót er mikil vítamínsprauta fyrir hestamennsku í því héraði sem landsmótið er haldið á. Það hjálpar staðarhöldurum við að fá stuðning til uppbyggingarinnar, eflir ferðaþjónustu og alla stoðþjónustu, eins og reiðvegagerð o.fl. Því tel ég það grundvallaratriði að dreifa landsmótum um landið eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni og með því sé markmiðum laga LH um útbreiðslu og kynningarstarfsemi best sinnt og jafnframt hagsmunamálum sem tengjast samgöngu- og ferðamálum, landnýtingu og umhverfismálum. Með því að dreifa landsmótum á þá staði sem uppfylla kröfur til landsmótshalds þá er verið að  gæta félagslegs réttlætis og jafnræðis og vinna að eflingu hestamennskunnar sem víðast á landinu.
Ef landsmótsstaðirnir væru einungis tveir, hvað þá bara einn, eins og þeir vilja sem telja að sá staður sé staðurinn þeirra, erum við að koma í veg fyrir fjölbreytni og hindrar jákvæða samkeppni milli staða. Þá væri hættunni boðið heim um að staðarhaldarar sem telja sig eiga mótin sofni á verðinum og eðlileg framþróun verði ekki á mótsstöðum. Í því sambandi má nefna það að ég endurskipulagði mótssvæðið á Gadd¬staða¬flötum fyrir landsmót 1986 og mótssvæðið á Vindheimamelum fyrir landsmót 2002. Á báðum þessum stöðum gerði ég ráð fyrir að plantað yrði trjám til að mynda skjól á mótssvæðunum. Mikið hefði verið skemmtilegra á Gaddstaðaflötum 2008 ef þar hefði verið um 20 ára trjábelti norðan við svæðið.
Á Melgerðismelum í Eyjafirði var byrjað að planta trjám til skjólmyndunar strax árið 1983 og verulega var bætt í árið 1991 og árin þar á eftir. Nú er svo komið að skógurinn er farinn að setja verulegan svip á svæðið auk þess sem skjólmyndun er orðin umtalsverð. Á seinasta ári var síðan byggður nýstárlegur kynbótavöllur, Náttfaravöllurinn, þar sem trén eru notuð sem umgjörð og afmörkun. Tel ég að á Melgerðismelum sé nú besta aðstaða á landinu til að sýna kynbótahross.
Hvað varðar offjárfestingu á landsmótssvæðum þá tel ég að svæðin eigi að leggja til þá aðstöðu sem verður eftir á svæðinu og nýtist á milli móta, en mótið leggi til bráðabirgða-aðstöðu, eins og veitingatjöld, áhorfendabekki ef þarf, sjónvarpsskjái o.þ.h.
Á Melgerðismelum hefur einungis verið farið í framkvæmdir sem nýtast svæðinu á árlegum mótum og milli móta. Reiðskemman Melaskjól, sem byggð var 2008 og er skuldlaus, er fyrst og fremst fjölnota vinnuaðstaða. Hún er notuð til frumtamninga, námskeiðahalds og lítilla sýninga eins og folaldasýninga og sölusýninga á ótömdum tryppum í tengslum við stærstu stóðrétt í Eyjafirði og til byggingadóma kynbótahrossa. Þá er rekin tamningastöð á Melgerðismelum allan ársins hring og nú er búið að samþykkja skipulag sem gerir ráð fyrir frekari uppbygginu hesthúsa á svæðinu. Tvö ný hesthús verða byggð við reiðskemmuna og annað þeirra á þessu ári. Félagsheimilið Funaborg er notað til ýmiss konar samkoma, sem veislusalur, danssalur, aðstað til ættarmóta o.s.frv. Þá er vert að minna á alla þá þjónustu sem er á Akureyri í 25 km fjarlægð með alþjóðaflugvöll, nægt gistirými o.s.frv.
Það ríkti ekki sátt um þá ákvörðun stjórnar LH að velja landsmóti stað á Vindheimamelum 2010. Sú ákvörðun var tekin á símafundi án þess að skoða almennilega aðra valmöguleika.
Nú virðist annað uppi á teningnum og stjórn LH hefur skoðað þá staði sem í boði eru og virðist ætla að vanda sig við staðarvalið. Þess vegna trúi ég því að samið verði við Fák um landsmót 2012 og að landsmóti 2014 verði valinn staður á Melgerðismelum.
Gangi það eftir þá mun ég leggja til að Melgerðismelar sæki ekki  um landsmót 2016 eða 2018 og komi inn nýir staðir sem eru hæfir til að halda landsmót þá fagna ég því og mun hér eftir sem hingað til hjálpa til við og styðja uppbygginu fyrir hestamennsku á öllu landinu.

Jónas Vigfússon
Litla-Dal í Eyjafirði