Ísköld með nýtt hross í keppni

15.02.2016
Kristín og Þokki á heimavelli á við Pétursey.

Kristín Lárusdóttir er heimsmeistari í tölti, fyrst íslenskra kvenna. Hún átti farsælan keppnisferil með hestinn Þokka frá Efstu-Grund sem endaði með heimsmeistaratitli í Herning síðast liðið sumar. Þokki hefur nú fengið nýja eigendur og Kristín er að koma sér upp nýjum keppnishesti. Hún tekur þátt í landsliðsverkefninu „Ískaldar töltdívur“ sem er kvennatöltmót haldið til styrktar landsliðinu í hestaíþróttum sem fer á Norðurlandamótið í Noregi í ágúst. Hún þekkir af eigin raun hvernig það er að vera hluti af landsliði, og hversu miklu máli skiptir að hestamenn standi á bak við landsliðið sitt.

Kristínu þekkja hestamenn orðið nokkuð vel en hún er bóndi á Syðri-Fljótum í Meðallandi og býr þar ásamt fjölskyldu sinni. Hún telur ekki eftir sér að keyra í rúma þrjá klukkutíma til að taka þátt í töltmóti í Reykjavík, þó að það sé gríðarlega mikið að gera í bústörfunum og hestamennskunni.

„Það væri gaman að geta tekið þátt í fleiri mótum en tíminn leyfir það hreinlega ekki. Það er mikið að gera hjá okkur og ekki alltaf auðvelt að komast frá, við erum ekki beint í skotfæri frá höfuðborginni,“ segir Kristín.

Hún skráði sig samt til leiks á „ÍSKALDAR TÖLTDÍVUR“ sem haldið verður í Samskipahöllinni í Spretti á laugardaginn kemur og að sjálfsögðu með nýtt keppnishross.

„Já, ég lít einfaldlega á þetta sem nýja áskorun. Ég hef ekki tekið þátt í keppni síðan á HM í fyrrasumar, svo ég verð bókstaflega að dusta rykið af keppnisgallanum fyrir helgina,“ segir Kristín og hlær. Hryssan sem ég kem með er á áttunda vetur heitir Aðgát og er undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu. Við keyptum hana í fyrrahaust en við höfðum frumtamið hana áður fyrir Valgarð á Víðivöllum fremri. Þetta er efnileg hryssa sem aldrei hefur verið keppt á áður og ég veit ekki alveg hvort hún verður tilbúin fyrir helgi! En þetta er framtíðarhross hjá okkur, svo að við ætlum bara að prófa og hafa gaman á laugardaginn,“ segir Kristín og bætir við í gríni: „Ég hefði nú helst viljað skrá mig í áhugamannaflokk en Diddi (Sigurbjörn Bárðarson) þvertók fyrir það,“ segir Kristín að lokum og skellihlær.

Kristín hvetur allar hestakonur til finna sér réttan styrkleikaflokk og skrá sig á „ÍSKALDAR TÖLTDÍVUR“ í Samskipahöllinni á laugardaginn. Skráning er í gengum skráningarkerfi hestamanna, smellið hér.