Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2021

11.12.2020

Á fyrsta fundi nýrrar stjórna LH var samþykkt að Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna 2021 verði haldið á Hólum í Hjaltadal dagana 1. til 4. júlí. Hestamannfélögin á Norðvestur- og Norðurlandi munu halda mótið í sameiningu.

Á Landþingi 2020 voru gerðar allnokkrar breytingar á reglugerð um Íslandsmót sem unnar voru af sérstökum starfshópi sem stjórn LH skipaði í þeim tilgangi að efla alla umgjörð um mótið og festa dagsetningar og dagskrá mótsins.

Helstu breytingar eru:

  • Rétt til þátttöku hafa efstu pör á stöðulista í hverri grein og gilda einkunnir pars frá núverandi og fyrra keppnistímabili. Stöðulisti er tekinn út 5 dögum fyrir mót.
  • Fjöldi þátttakenda í fullorðinsflokki er 30 í hringvallagreinum, gæðingaskeiði og 100 m. skeiði og 20 í 150 og 250 m. skeiði.
  • Fjöldi þátttakenda í ungmennaflokki er 20 í hringvallagreinum, 15 í gæðingaskeiði og 100 m. skeiði og 6 í 150 og 250 m. skeiði.
  • Flokkar fullorðinna og ungmenna ríða forkeppni saman en úrslit eru í hvorum flokki fyrir sig.
  • Dagskrá mótsins skal vera í föstum skorðum til hagræðingar fyrir áhorfendur og fjölmiðla.
  • Dagsetning mótsins er á heimsmeistaramótsárum fyrsta helgin í júlí en á landsmótsárum í annari viku eftir landsmót.

Með þessum breytingum er stigið skref í átt til umgjarðar og framkvæmdar sem þekkist á heimsmeistaramótum.