Íslandsmót í hestaíþróttum og áhugamannamót Íslands 2023 auglýst til umsóknar

01.12.2022

Á landsþingi 2022 voru samþykktar breytingar á reglugerð Íslandsmóts og er því  Íslandsmót fullorðinna og ungmenna auglýst til umsóknar á ný.

Mótið skal haldið 29. júní-2. júlí 2023 og er hér með laust til umsóknar fyrir áhugasama og metnaðarfulla mótshaldara.

Eins og kunnugt er, þá er heimsmeistaramótsár framundan, á HM árum er Íslandsmótið iðulega hið allra glæsilegasta og rjóminn af því besta sem í boði er í hestaíþróttum mætir til leiks. Íslandsmótið 2023 verður því einn af stóru hápunktum keppnisársins á Íslandi.

Á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna skal keppt í einum styrkleikaflokki í hvorum flokki fyrir sig, keppt í greinum þar sem keppendur eru einir inni á vellinum í einu, en það eru V1, F1, T1, T2 ásamt skeiðgreinum, PP1, P1, P2 og P3. Auk þess er í ungmennaflokki keppt í fimi sem á liðnu landsþingi kom undir regluverk mótahalds LH.

Þátttökurétt á Íslandsmóti ungmenna og fullorðinna hafa pör sem á keppnisárinu hafa náð lágmarkseinkunn í hverri grein, og það er keppnisnefnd LH sem gefur út lágmörkin í febrúar.

Áhugamannamót Íslands 2023 er einnig auglýst til umsóknar og skal haldið 21.-23. júlí 2023.

Á Áhugamannamóti Íslands skal keppt í einum styrkleikaflokki, 1. flokkur, og keppnisgreinar eru T3, T4, T7, F2, V2, V5, PP1, 100m. skeið ásamt A-flokki og B-flokki gæðinga. Þátttökurétt á Áhugamannamóti Íslands hafa allir sem náð hafa 22 ára aldri á keppnisárinu og hafa ekki keppt í meistaraflokki í íþóttakeppni á síðastliðnum 5 árum.

Íslandsmóti barna og unglinga hefur þegar verið úthlutað til Hestamannafélagsins Geysis og verður haldið á Rangárbökkum 13.-16. júlí 2023. Þátttökuréttur á Íslandsmóti barna og unglinga er opinn öllum keppendum þessara flokka og keppt skal í:

  • Börn: V2, T3, T4 og fimi.
  • Unglingar: V1, T1, F2, T4, fimi og skeiðgreinum.

Mótshöldurum er heimilt að bjóða upp á fleiri greinar kjósi þeir svo, sem og sýningargreinar en í sýningargreinum skal ekki krýna Íslandsmeistara.

Umsóknir áhugasamra mótshaldara skulu berast Landssambandi hestamannafélaga fyrir 15 desember nk. lh@lhhestar.is