Íslandsmót ungmenna & fullorðinna hefst í Víðidalnum á morgun

24.07.2024

Íslandsmót ungmenna & fullorðinna hefst í Víðidalnum á morgun

Íslandsmót ungmenna & fullorðinna hefst á morgun fimmtudaginn 25. júlí kl. 12:00 á keppni í fjórgangi. Það er ljóst að fremstu knapar okkar eru á leið í Víðidalinn með sterkustu og fljótustu hesta landsins til að etja kappi um Íslandsmeistaratitla þessa árs og keppt verður í fjórgangi, fimmgangi, slaktaumatölti, tölti, flugskeiði, 150m skeiði, 250m skeiði og gæðingaskeiði.

 

Á morgun verður keppt í fjórgangi beggja flokka og í fimmgangi ungmenna. Deginum lýkur svo á fyrri umferð í kappreiðaskeiði.

 

Ýmsar nytsamlegar upplýsingar er að finna á viðburði mótsins á Facebook og sömuleiðis í HorseDay smáforritinu. Alendis streymir beint frá mótinu allan tímann.

 

Veitingasala verður í reiðhöllinni og mun Jón Guðmundsson kokkur og starfsfólk mótsins sjá um að allir fái eitthvað gott í gogginn alla mótsdagana.

 

Ef eitthvað brennur á fólki þá er hægt að hafa samband við mótsstjóra og/eða yfirdómara með pósti á skraning@fakur.is.

 

Víðidalurinn mun taka vel á móti keppendum, aðstandendum og öðrum gestum og skartar nú þegar sínu allra fegursta.

 

Mótsstjórn óskar keppendum góðs gengis og drengilegrar keppni.