Íþróttastyrkur til félaga sem sinna grasrótarstarfi

10.02.2025

Við minnum á að umsóknarfrestur fyrir íþróttastyk Erasmus+ rennur út á miðvikudaginn, 12. feb. Styrkurinn er ætlaður félögum sem sinna grasrótarstarfi innan íþróttanna og þjálfun fólks á aldrinum 13-30 ára.

Verkefni í þessum hluta áætlunarinnar er ætlað að styðja við uppbyggingu íþróttafélaga í starfi með ungu fólki. Það er hægt að sækja um tvenns konar verkefni:

  1. Vettvangsheimsókn/starfspeglun þar sem starfsfólk, stjórnarfólk, þjálfarar og sjálfboðaliðar félagsins geta farið í styttri heimsóknir til annarra íþróttafélaga í Evrópu, kynna sér starfsemi þeirra, læra nýja starfshætti, fylgjast með samskiptum og daglegum störfum við iðkendur, þjálfara og annað starfsfólk auk þess að efla tengslanet sitt. Algengt er að vettvangsheimsóknir standi yfir í 2-4 daga, auk 2 ferðadaga en hægt er að heimsækja annað íþróttafélag með allt að 10 þátttakendum frá Íslandi í 2-14 daga.
  2. Þjálfunarverkefni þar sem þjálfarar taka þátt í þjálfun eða sjá um þjálfun hjá móttökuíþróttafélögum í Evrópu með það að markmiði að miðla þekkingu og reynslu auk þess að sækja sér þekkingu/reynslu/nálgun sem viðkomandi íþróttafélag er að nota í sínu starfi. Þessi þjálfunarverkefni geta staðið yfir í 15-60 daga.

Styrkurinn er annars vegar ákveðinn ferðakostnaður, miðað við fjarlægð lands í loftlínu og hins vegar einstaklingsstyrkur sem er einingaupphæð ætluð í gistingu og uppihald á meðan verkefninu stendur.

Það þarf ekki að vera búinn að finna samstarfsaðila áður en umsókninni er skilað inn en það hjálpar að vera með hugmynd hvaða land ykkur langar að heimsækja þar sem t.d. ferðakostnaðurinn er byggður á fjarlægð á milli Íslands og þess lands sem á að heimsækja.

 

Nánari upplýsingar er að finna hér: https://www.erasmusplus.is/taekifaeri/ithrottir/