Knapi ársins er Jakob Svavar Sigurðsson

18.12.2020

Viðurkenningar fyrir knapa ársins og keppnishestabú ársins voru veittar sigurvegurum í hverjum flokki í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í dag. Það var formaður LH Guðni Halldórsson sem afhenti verðlaunin sem eru gefin af Ásbirni Ólafssyni. Framkvæmdastjóri ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir afhenti við sama tækifæri Jakobi Svavari Sigurðssyni, knapa ársins viðurkenningu frá ÍSÍ.

 

Knapi ársins 2020 

Jakob Svavar Sigurðsson er knapi ársins 2020 og er það í annað sinn sem hann hlýtur þann heiður. Jakob Svavar er fjölhæfur afreksknapi sem tók þátt í nær öllum keppnisgreinum sem í boði eru á þeim mótum sem haldin voru í ár og var reglulega í úrslitum eða á meðal sigurvegara á þeim. Hann náði góðum árangri í íþróttakeppni og þá sérstaklega á þeim Hálfmána frá Steinsholti í tölti og fjórgangi og Konsert frá Hofi í tölti. Þá má einnig nefna Erni frá Efri-Hrepp sem hlaut 8,08 í gæðingaskeiði og Vallarsól frá Völlum og Kopar frá Fákshólum sem hann keppti á í slaktaumatölti með góðum árangri. Hann er á meðal fimm efstu knapa á stöðulistum ársins í öllum áðurnefndum keppnisgreinum. Hann tók þátt í skeiðgreinum á Jarli frá Kílhrauni og er besti tími þeirra í 100 metra skeiði 7,57 sekúndur. Hann sýndi 40 hross í kynbótadómi í 46 sýningum með frábærum árangri og átti margar eftirminnilega sýningar á árinu. Hann tók þá einnig þátt í gæðingakeppni á Nökkva frá Syðra-Skörðugili og var m.a í A-úrslitum í A-flokki á Gæðingamóti Geysis. Jakob Svavar er fagmaður fram í fingurgóma með háttvísi, sanngjarna reiðmennsku og íþróttamannslega framkomu að leiðarljósi, hann er knapi ársins 2020.

 

Íþróttaknapi ársins 2020

Ragnhildur Haraldsdóttir​ er íþróttaknapi ársins 2020. Hún, Úlfur frá Mosfellsbæ og Vákur frá Vatnsenda stóðu sig mjög vel á árinu og voru í úrslitum á flestum af þeim mótum sem þau mættu og stóðu iðulega efst á palli. Ragnhildur stendur efst á stöðulista með Vák í V1 og 6.sæti í T1. Þau urðu varð í fyrsta sæti í V1 ár Reykjavíkurmeistaramótinu og voru í A-úrslitum í T1. Ragnhildur hlaut einnig reiðmennskuverðlaun FT á því móti. Ragnhildur er vel að útnefningunni komin mætir ávallt vel undirbúin til leiks með bros á vör og sanngjarna reiðmennsku að leiðarljósi.

 

Skeiðknapi ársins 2020

Konráð Valur Sveinsson​ er skeiðknapi ársins 2020 og er það í þriðja skiptið á jafnmörgum árum sem hann hlýtur þann titil. Hann og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu eiga besta tíma ársins í öllum vegalengdum skeiðkappreiða. Á meðal afreka hans má nefna það að hann sigraði keppni í 250 og 100 metra skeiði á Reykjavíkurmeistaramóti á Kjarki og þá var hann heildarsigurvegari á Skeiðleikum Skeiðfélagsins. Því til viðbótar má nefna að hann reið fjórum hrossum á undir átta sekúndum í 100 metra skeiði í ár. Konráð Valur hefur þrátt fyrir ungan aldur skipað sér í hóp sigursælustu skeiðknapa frá upphafi.

 

Efnilegasti knapi ársins 2020

Glódís Rún Sigurðardóttir​ er efnilegasti knapi árisins 2020. Hún hefur staðið sig vel á keppnisbrautinni bæði í íþrótta- og gæðingakeppni undanfarin ár. Glódís Rún hefur staðið í fremstu röð á þeim mótum sem hún tekur þátt í. Glódís Rún varð í fyrsta sæti í T2, V1 og samanlagður fjórgangssigurvegari á Reykjavíkurmeistaramótinu. Glódís Rún stendur efst á stöðulista í V1, T2, V2 og F2 ungmenna. Glódís Rún er fyrirmynd innan vallar sem utan.

 

Gæðingaknapi ársins 2020

Hlynur Guðmundsson ​er gæðingaknapi ársins 2020. Hann hefur verið ötull með Trommu frá Höfn í B-flokki gæðinga í sumar. Hlynur varð annar á Gæðingaveislu Sörla með einkunnina 8,93 og einnig annar á Meistaramóti Íslands í gæðingakeppni með einkunnina 8,76. Sigraði félagsmót Hornfirðings með einkunnina 8,90 og einnig sigraði hann Gæðingamót Geysis með einkunnina 8,93. Hlynur er í 6. sæti á stöðulista í B-flokki gæðinga. Tromma frá Höfn og Hlynur standa efst á WR lista í B-flokki gæðinga með einkunnina 8,58.

 

Kynbótaknapi ársins 2020

Árni Björn Pálsson​ er kynbótaknapi ársins 2020. Er þetta í þriðja skiptið í röð sem Árni Björn hlýtur þá útnefningu og fjórða skiptið alls. Hann átti frábært ár á kynbótabrautinni en hann sýndi alls 87 hross í fullnaðardómi í ár í 100 sýningum. Meðalaldur þeirra hrossa er 5,9 ár og er meðaltal hæfileika 8,12, meðaltal sköpulags 8,23 og meðaltal aðaleinkunnar 8,16. Árni er öðrum knöpum fyrirmynd í háttvísi og framkomu og þá er vert að taka fram að af þessum 100 sýningum voru 93% þeirra áverkalausar. 

Við val á kynbótaknapa ársins var horft til meðaleinkunnar, meðalaldurs og fjölda sýndra hrossa. Auk þess var stuðst við áverkaskráningu á kynbótasýningum.

 

Keppnishestabú ársins 2020

Árbæjarhjáleiga 2​ er keppnishestabú ársins 2020. Mörg hross frá Árbæjarhjáleigu 2 hafa staðið sig gríðarlega vel á keppnisbrautinni á liðnu keppnistímabili. Atkvæðamestur er skeiðgarpurinn Kjarkur, tvöfaldur Reykjavíkurmeistari, í 100m skeiði og 250m skeiði, er með besta tíma í 100m skeiði á árinu 7,32 sek., besta tímann í 150m skeiði 14,17 sek. og besta tímann í 250m skeiði 21,57 sek. Þrjú hross frá Árbæjarhjáleigu 2 voru í einu af 10 efstu sætum í fimmgangi á Þýska Meistaramótinu en það voru Skúli í öðru sæti með einkunnina 7,24, Eldur í 4. sæti eftir forkeppni með einkunnina 6,97 og Ófeigur í 2. sæti í b-úrslitum (7. sæti) með einkunnina 6,93. Aría frá Árbæjarhjáleigu 2 keppti í flokki ungmenna á Þýska Meistaramótinu og sigraði V1 með einkunnina 6,77 og varð einnig í þriðja sæti í T1 á sama móti.