Jóhann knapi ársins

06.11.2011
Knapar ársins í öllum flokkum. Á myndina vantar Bergþór Eggertsson. Mynd: OÝS
Uppskeruhátið hestamanna fór fram á Broadway í gærkvöldi og var mikið um dýrðir. Uppskeruhátið hestamanna fór fram á Broadway í gærkvöldi og var mikið um dýrðir.  Þetta var stórt ár í keppnishestamennskunni og því mörgu að fagna þegar árið er gert upp.

Dagskrá kvöldsins var hefðbundin. Haraldur Þórarinsson bauð gesti hjartanlega velkomna og setti hátíðina formlega. Að því búnu var komið að veislustjóra kvöldins, Halldóri Gylfasyni leikara að taka við stjórninni.

Heiðursverðlaun fyrir ötul og óeigingjörn störf í þágu hestamennskunnar á Íslands vor að þessu sinni veitt tveimur einstaklingum sem ætíð hafa lagt mikið af mörkum innan hreyfingarinnar. Þetta voru þeir Kári Arnórsson og Haraldur SVeinsson.

Verðlaunin fyrir ræktun keppnishesta kom í hlut Baldvins Ara Guðlaugssonar og Ingveldar Guðmundsdóttur og Guðlaugs Arasonar og Snjólaugar Baldvinsdóttur en þau kenna ræktun sína við Efri-Rauðalæk í Hörgárdal. Þau hafa um áratugaskeið ræktað hross og notað í sinni ræktun bæði góðar merar af þekktum ættbogum hér á landi, sem og ávallt bestu stóðhesta landsins. Segja má að hryssan Kvika frá Brún hafi verið mikill happafengur fyrir búið og gaf hún 11 afkvæmi og 7 þeirra hafa hlotið góð eða mjög góð fyrstu verðlaun, m.a. Ljósvaka frá Akureyri, Drottningu, heimsmeistarann Hraunar og Krók frá Efri-Rauðalæk.

Knapverðlaun kvöldsins voru veitt af Ólafi E. Rafnssyni forseta ÍSÍ og Haraldi Þórarinssyni formanni LH:

Efnilegasti knapinn: Arna Ýr Guðnadóttir
Kynbótaknapinn: Þórður Þorgeirsson
Íþróttaknapinn: Sigursteinn Sumarliðason
Skeiðknapinn: Bergþór Eggertsson
Gæðingaknapinn: Hinrik Bragason
Knapi ársins: Jóhann Rúnar Skúlason

Titillinn knapi ársins kom í hlut Jóhanns Rúnars Skúlasonar. Jóhanni tókst hið ótrúlega í sumar þegar hann á HM 2011 í Austurríki, varð heimsmeistari í tölti í fimmta sinn á fjórum hestum, nú á hestinum Hnokka frá Fellskoti.

Að dagskrá lokinni hófst fjörugt ball með hljómsveitinni Von og var Matti Matt gestasöngvari hjá þeim. Héldu þeir uppi stuðinu fram eftir nóttu.