Kastanía frá Kvistum mætir í töltið á Allra sterkustu

02.05.2023
Kastanía frá Kvistum og Árni Björn Pálsson. Mynd Nicki Pfau

Nú eru einungis fáeinir dagar í stórsýninguna Allra sterkustu og farið að skýrast hvaða hestar munu mæta til leiks. Ljóst er að töltið verður einkar spennandi en þar munu meðal annarra keppa Árni Björn Pálsson og Kastanía frá Kvistum en þau unnu töltið í Meistaradeild Líflands. Kastanía hefur hlotið verðskuldaða eftirtekt, hún er hátt dæmd klárhryssa sem hefur verið að blómstra í höndunum á Árna Birni.

Jakob Svavar Sigurðsson mætir á Skarpi frá Kýrholti sem er ört vaxandi hestur sem komst í úrslit í tölti í Meistaradeildinni. Þá mun Ásmundur Ernir Snorrason mæta með Happadís frá Strandarhöfði sem er ein hæst dæmda klárhryssa í heimi.

Eiga þessi þrjú hross það sammerkt að vera einungis átta vetra gömul en eru þegar farin að vekja verðskuldaða eftirtekt. Það er gaman að segja frá því að öll hafa þau hlotið 9,5 fyrir tölt og samstarfsvilja í kynbótadómi. 

Það verður spennandi að sjá þau mæta til leiks næstkomandi laugardag.

Allra sterkustu fer fram laugardaginn 6. maí kl. 20.00 í TM reiðhöllinni. Tryggið ykkur miða í vefverslun LH!

Kaupa miða á Allra sterkustu með kvöldverði

Kaupa miða á Allra sterkustu